Dagur Árni framlengir um tvö ár

Handbolti
Dagur Árni framlengir um tvö ár
Haddur og Dagur handsala samninginn góða

Dagur Árni Heimisson hefur skrifað undir nýjan tveggja ára samning við handknattleiksdeild KA og er nú samningsbundinn út tímabilið 2024-2025. Dagur Árni sem er enn aðeins 16 ára gamall spilaði stórt hlutverk í meistaraflokksliði KA á nýliðnum vetri og er einn af efnilegustu leikmönnum landsins.

Það eru frábærar fréttir að Dagur Árni sé búinn að skrifa undir nýjan samning en auk þess að koma afar sterkur inn í meistaraflokkslið KA hefur hann verið burðarstóll í ógnarsterku liði KA í árgang 2006 en strákarnir töpuðu ekki leik í öllum fjórða flokki þar sem þeir hömpuðu öllum þeim titlum sem í boði voru á Íslandi áður en þeir urðu Partille Cup meistarar en þar lögðu þeir mörg af sterkustu liðum Norðurlandanna.

Á nýliðnum vetri tók Dagur þátt í 26 leikjum KA liðsins og gerði í þeim 28 mörk auk þess að eiga 29 stoðsendingar. Þá lék hann auk þess átta leiki með ungmennaliði KA í Grill66 deildinni þar sem hann gerði 42 mörk en KA U endaði í 5. sæti næstefstu deildar í vetur.

Dagur er einnig fastamaður í yngrilandsliðum Íslands og verður virkilega gaman að fylgjast áfram með framgöngu þessa öfluga leikstjórnanda en hann hefur ekki langt að sækja handboltahæfileika sína en foreldrar hans eru þau Heimir Örn Árnason og Martha Hermannsdóttir sem bæði urðu Íslandsmeistarar með KA og KA/Þór auk þess að leika með A-landsliðum Íslands.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is