Bergrós, Lydía og Sif í lokahóp U17

Handbolti
Bergrós, Lydía og Sif í lokahóp U17
Stelpurnar stóðu fyrir sínu um helgina

KA/Þór á þrjá fulltrúa í lokahóf U17 ára landsliðs Íslands í handbolta sem tekur þátt á EM í Svartfjallalandi 2.-14. ágúst í sumar. Þetta eru þær Bergrós Ásta Guðmundsdóttir, Lydía Gunnþórsdóttir og Sif Hallgrímsdóttir og óskum við þeim innilega til hamingju með valið.

Stelpurnar léku um helgina tvo æfingaleiki við Færeyjar en leikið var í Færeyjum. Fyrri leikurinn fór fram á laugardaginn, Færeyjar byrjuðu betur og leiddu 15-13 í hálfleik. Íslenska liðið sneri leiknum sér ívil í þeim síðari og tókst að vinna sætan 24-23 sigur með marki á lokasekúndu leiksins.

Lydía var markahæst í íslenska liðinu með 7 mörk og Bergrós gerði 2 mörk í leiknum. Sama spenna var í síðari leik liðanna en hann endaði með jafntefli 27-27. Lydía gerði 2 mörk í leiknum og Bergrós eitt en Sif varði 11 skot í markinu. Flottir leikir að baki hjá stelpunum og verður svo sannarlega gaman að fylgjast með þeim á stóra sviðinu í sumar.

Lydía spilaði stórt hlutverk í meistaraflokksliði KA/Þórs í vetur en hún gerði alls 85 mörk í 27 leikjum. Sif spilaði einnig vel með meistaraflokksliði KA/Þórs á nýliðnu tímabili en hún varði alls 34% af þeim skotum sem hún fékk á sig í markinu.

Bergrós sem er ári yngri fór hamförum er 4. flokkur KA/Þórs varð Íslandsmeistari og Deildarmeistari í vetur en hún gerði meðal annars 14 mörk í úrslitaleiknum sem gera helming af mörkum liðsins í 28-26 sigri á Val.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is