Bæjarslagurinn er á laugardaginn!

Strákarnir eru klárir í slaginn!
Strákarnir eru klárir í slaginn!

Einhver stærsti leikur tímabilsins er á laugardaginn þegar KA sækir Akureyri heim í Íþróttahöllina klukkan 18:00. Bæði lið eru í harðri baráttu um áframhaldandi veru í efstu deild og því miklu meira undir en bara bæjarstoltið, það er ljóst að við þurfum á ÞÉR að halda í stúkunni!

KA er með 8 stig í 8. sæti deildarinnar á sama tíma og Akureyri er með 6 stig í 12. sætinu. Staða liðanna mun því breytast ansi mikið eftir því hverjir fara með sigur af hólmi og alveg klárt að það verður ekki minni barátta í stúkunni en inni á vellinum sjálfum.

Stemningin á fyrri leik liðanna í KA-Heimilinu fyrr í vetur var ógleymanleg og hún átti svo sannarlega sinn þátt í ævintýralegum 28-27 sigri okkar liðs. Stuðningsmenn KA ætla að hittast á Icelandair Hotel klukkan 16:00 og þaðan verður svo rölt yfir í Höllina þegar nær dregur leik. Mætum öll gul og glöð og styðjum okkar lið, áfram KA!