Ásdís Guðmundsdóttir skrifaði í dag undir nýjan tveggja ára samning við KA/Þór í handboltanum. KA/Þór tryggði sér sigur í Grill 66 deildinni á nýliðnum vetri en stelpurnar töpuðu ekki leik í deildinni ásamt því að komast í undanúrslit Coca-Cola bikarsins.
Þetta eru frábærar fréttir enda var Ásdís í lykilhlutverki hjá liðinu á síðasta tímabili en línumaðurinn öflugi gerði 85 mörk í 15 deildarleikjum og var valin efnilegasti leikmaður liðsins á lokahófi handboltans.
Það er nóg framundan hjá Ásdísi en hún og Aldís Ásta Heimisdóttir eru á leiðinni á HM í Ungverjalandi með U-20 landsliði Íslands. Stelpurnar eru í riðli með Rússlandi, Suður-Kóreu, Slóveníu, Kína og Chile og fara fjögur efstu liðin uppúr riðlinum og inn í 16-liða úrslitin. Aldís Ásta skrifaði fyrr í sumar undir nýjan tveggja ára samning við KA/Þór og frábært að halda þessum öflugu leikmönnum hjá liðinu.