Aron Daði skrifar undir fyrsta samninginn

Handbolti
Aron Daði skrifar undir fyrsta samninginn
Haddur og Aron handsala samninginn

Aron Daði Stefánsson hefur skrifað undir sinn fyrsta meistaraflokkssamning við handknattleiksdeild KA. Aron Daði sem er 16 ára gamall er gríðarlega efnilegur og spennandi leikmaður sem er að koma uppúr yngriflokkum félagsins en samningurinn gildir út tímabilið 2024-2025.

Aron stóð í ströngu í vetur en hann lék bæði með 3. og 4. flokk KA auk ungmennaliðs KA í Grill66 deildinni. Hann hefur undanfarin ár leikið upp fyrir sig með 2006 árgang KA en strákarnir töpuðu ekki leik í öllum fjórða flokki þar sem þeir hömpuðu öllum þeim titlum sem í boði voru á Íslandi áður en þeir urðu Partille Cup meistarar en þar lögðu þeir mörg af sterkustu liðum Norðurlandanna.

Þá er hann einnig fastamaður í yngrilandsliðunum þrátt fyrir að vera ári yngri en flestir leikmenn U17 liðsins. Aron er afar fjölhæfur leikmaður og verður virkilega gaman að fylgjast áfram með framgöngu hans í gula og bláa búningnum næstu árin.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is