Akureyrarliðið fékk vissulega skell í fyrri hálfleiknum gegn Haukum í gærkvöldi en sýndu klærnar í seinni hálfleiknum. Á þeirri frammistöðu þurfum við að byggja á laugardaginn þegar liðin mætast öðru sinni, að þessu sinni hér fyrir norðan.
Það er ekki spurning að strákarnir munu mæta dýrvitlausir í þann leik og með sameiginlegu átaki allra stuðningsmanna handboltans er ljóst að nú þarf að leggjast á eitt með að tryggja oddaleik í þessu einvígi. Allavega leggja menn ekki niður skottið baráttulaust.
Við minnum stuðningsmenn á þá nýbreytni sem var kynnt í haust að Gullkortið 2015-2016 gildir einnig á heimaleiki Akureyrar í úrslitakeppninni og þar með á leikinn á laugardaginn.
Það þarf ekki að hafa mörg frekari orð um leikinn eða kynna liðin heldur mæta til leiksins og standa dyggilega með okkar mönnum. Það er allt undir og slíkir leikir eru einmitt alskemmtilegastir. Mætum og skemmtum okkur, leikurinn hefst klukkan 16:00 á laugardaginn!
2. flokkur: Akureyri mætir líka Haukum í úrslitakeppninni
Það er ekki bara meistaraflokkur Akureyrar sem er að kljást við Hauka í úrslitakeppninni því sama staða er uppi hjá strákunum í 2. flokki. Samkvæmt leikjaplani eiga strákarnir að fara suður á sunnudaginn og mæta Haukum í Schenkerhöllinni klukkan 16:00.
Aðeins er um einn leik að ræða þannig að sigurvegarinn í leiknum fer í fjögurra liða úrslitin.
Liðin mættust tvisvar í deildarkeppninni í vetur, fyrri leikinn var Akureyri1 sannfærandi 30-24 en dæmið snerist við í seinni leiknum þar sem Haukar unnu með sama mun 27-21. Það er því líklegt að þarna munu mætast stálin stinn og ómögulegt að spá fyrir um úrslitin.
Ef meistaraflokki Akureyrar tekst ætlunarverk sitt á laugardaginn, að knýja fram oddaleik gegn Haukum þá er reyndar mjög líklegt að þessum leik 2. flokks verði frestað um einhverja daga. En það skýrist á laugardaginn.
Við vonumst til að sjá þig á leiknum á laugardaginn,
Leikmenn og stjórn Akureyrar Handboltafélags.