U-20 ára landslið kvenna í handbolta fer á HM í Ungverjalandi í sumar en liðið tryggði sæti sitt á mótinu með flottri frammistöðu í undanriðli sem fram fór í Vestmannaeyjum í mars. KA/Þór átti tvo fulltrúa í liðinu þegar HM sætið var tryggt en það voru þær Aldís Ásta Heimisdóttir og Ásdís Guðmundsdóttir.
Í dag var lokahópurinn tilkynntur fyrir Heimsmeistaramótið og eru bæði Aldís og Ásdís í hópnum sem eru mikil gleðitíðindi. Stelpurnar eru í riðli með Rússlandi, Suður-Kóreu, Slóveníu, Kína og Chile og fara fjögur efstu liðin uppúr riðlinum og inn í 16-liða úrslitin.
Það verður virkilega gaman að fylgjast með stelpunum á mótinu enda eru margar efnilegar stelpur í hópnum og verður áhugavert að sjá hvar þær standa gegn jafnöldrum sínum utanúr heimi. Við óskum þeim Aldísi og Ásdísi góðs gengis og til hamingju með HM sætið.