Akureyri-Valur í KA-heimilinu í dag kl. 19:30

Nú er búið að ákveða að leikur Akureyrar og Vals hefst klukkan 19:30 í dag. Eftir ófærð síðustu daga hefur gengið erfiðlega að opna Öxnadalsheiðina en nú telja menn að það muni takast og að leikurinn hefjist klukkan 19:30 í KA-heimilinu. Árshátíð starfsmanna Akureyrarbæjar er í Íþróttahöllinni seinna í kvöld og því fer leikurinn fram í KA-heimilinu.

Akureyrarliðið er ekki alveg ókunnugt því að spila í KA-heimilinu því fyrstu tvö tímabil liðsins 2006-2007 og 2007-2008 fóru heimaleikir liðsins fram þar. Sumarið 2008 var gólf Íþróttahallarinnar endurnýjað, skipt út gömlum dúk og sett vandað parket gólf og í kjölfarið var ákveðið að liðið færði æfingar og leiki sína þangað.

Reyndar lék Akureyrarliðið bikarleik í KA-heimilinu 4. október 2008 gegn HKR (Handknattleiksfélag Reykjanesbæjar) og vann þar stærsta sigur í sögu félagsins, 51-15. Þrír núverandi leikmenn Akureyrar tóku þátt í þeim leik, Andri Snær Stefánsson, Halldór Logi Árnason og Hreinn Hauksson. Sjá umfjöllun um leikinn gegn HKR.

Nú hefur bæði gólf og stúka verið endurnýjuð í KA-heimilinu þannig að aðstæður eru allar hinar ákjósanlegustu og um að gera fyrir alla stuðningsmenn að drífa sig á leikinn. Fyrir þá sem þekkja til sögunnar þá hafa leikir Akureyraliða og Valsmanna ávallt verið frábær skemmtun og engin ástæða til að efast um að það sama verði uppi á tengingunum í dag.

En aðeins um gestina, Valsara sem eru í þriðja sæti deildarinnar en þeir hafa verið á mikilli siglingu seinni hluta tímabilsins og unnið sex af síðustu sjö leikjum, flesta býsna örugglega.

Valsliðið er mjög vel mannað og eins og kunnugt er fara þar fremstir í flokki frændurnir Guðmundur Hólmar Helgason og Geir Guðmundsson sem gengu til liðs við Hlíðarendaliðið í sumar. Það er ekki ofsagt að þeir séu fremstir í Valsliðinu því þeir eru langmarkahæstir leikmanna Vals, Guðmundur Hólmar með 84 mörk og Geir með 79 eftir sautján leiki í deildinni. Þar næstir eru Sveinn Aron Sveinsson með 68 mörk og Finnur Ingi Stefánsson með 50 mark.

Í síðasta leik tóku Valsmenn ÍR-inga með sjö marka mun, þar var Geir markahæstur með 10 mörk og Finnur Ingi með 8 mörk. Þar á undan lék Valur við HK og vann sömuleiðis með sjö mörkum þar sem Gummi og Geir voru markahæstir með 8 mörk hvor.

 
Guðmundur og Geir heilsa áhorfendum í Höllinni

Liðin mættust síðast hér í Höllinni 30. janúar í vægast sagt kaflaskiptum leik. Akureyri byrjaði þann leik með miklum látum og virtist hafa leikinn í hendi sér eftir að hafa náð 10-4 forystu. Þar með fór allt á versta veg hjá Akureyri og Valsmenn hreinlega völtuðu yfir heimamenn og unnu að lokum átta marka sigur, 18-26.

Leikmenn Akureyrar hafa fullan hug á að bæta fyrir þann leik enda eru stigin sem í boði eru afar mikilvæg í baráttunni fyrir að sleppa við að lenda í umspili um fall.

Valsmenn hafa að sjálfsögðu áhuga á stigunum líka en þeir eru í baráttu um sæti í úrslitakeppninni.

Síðustu tveir heimaleikir Akureyrar í Olís-deildinni voru magnaðir, sigrar gegn ÍR og FH þar sem áhorfendur fengu svo sannarlega magnaða leiki.
Það er því full ástæða til að mæta í KA-heimilið á laugardaginn, það er svo sannarlega mikið í húfi.