Akureyri - Valur á morgun, fimmtudag

Á morgun, fimmtudag hefst keppni í Olísdeild karla á nýjan leik og það er einmitt Akureyri sem ríður á vaðið með heimaleik gegn stórliði Vals. Það er rétt að vekja strax athygli á að leiktímanum var breytt fyrir nokkrum dögum síðan, leikurinn hefst klukkan 18:00 (en ekki á hefðbundnum tíma 19:00).

Það verður forvitnilegt að sjá hvernig liðin koma til leiks eftir langt hlé en fyrir leikinn er staða þeirra þannig að Valur er í 4. sæti með 18 stig en Akureyri í 9. sæti með 11 stig.

Liðin mættust í Valshöllinni þann 22. október og var æsispennandi en að lokum unnu Valsmenn tveggja marka sigur, 24-22 með því að skora síðustu tvö mörk leiksins.

Við hvetjum að sjálfsögðu alla til að mæta í KA heimilið og styðja strákana af fullum krafti. Liðið hefur iðulega skapað rafmagnaða spennu í heimaleikjunum og því frábær skemmtun að taka þátt í fjörinu.

Akureyri TV
Við reiknum með því að sýna leikinn í beinni útsendingu á Akureyri TV þannig að þeir sem ekki komast í KA heimilið ættu að fylgjast með upplýsingum á heimasíðu Akureyrar þegar nær dregur, þar birtist tengill á útsendinguna skömmu fyrir leik.

Við vonumst til að sjá þig á leiknum á fimmtudaginn
Leikmenn og stjórn Akureyrar Handboltafélags.