Leikur dagsins: Akureyri - FH í Höllinni í dag

Það er enginn smáleikur sem við bjóðum upp á í Höllinni í kvöld þegar Akureyri tekur á móti FH-ingum í N1-deildinni. Það er ekki langt síðan liðin mættust hér á sama stað í bikarnum og þar fóru heimamenn með magnaðan sigur. Þessi tvö liði hafa trúlega mæst oftar en nokkur önnur á undanförnum árum og undantekningarlítið hafa leikirnir verið frábær skemmtun þar sem boðið er upp á spennu og dramatík.

Liðin hafa mæst tvisvar í deildinni í vetur, í fyrstu umferðinni lauk leiknum með jafntefli 23-23 en Akureyri sótti þriggja marka sigur í Hafnarfjörðinn,23 -26 þegar liðin mættust í 8. umferðinni.
FH sigraði þegar liðin mættust í deildarbikarnum en eins og áður er nefnt þá sló Akureyri FH-liðið út úr bikarnum fyrir tæpum tveim vikum í frábærum leik þann 13. febrúar.

Eins og staðan er í dag þá er hver leikur í N1-deildinni úrslitaleikur fyrir Akureyri og FH-liðið mætir örugglega til að hefna fyrir ófarirnar í bikarnum. Það er því hægt að lofa frábærum leik og áhorfendur leggja klárlega sitt að mörkum en þeir hafa sýnt og sannað að þeirra framlag er gríðarlega mikilvægt.

Bikarúrslitahelgin – Forsala á leik Akureyrar og Stjörnunnar
Dagana 8. – 10. mars lýkur bikarkeppninni með fjögurra liða úrslitum föstudaginn 8. mars þar sem Akureyri mætir Stjörnunni og sunnudaginn 10. mars verður úrslitaleikurinn og þangað ætlum við okkur.



Miðaverð á leik Akureyrar og Stjörnunnar er 1.000 krónur fyrir 13 ára og eldri. Akureyri fær ákveðinn fjölda aðgöngumiða til að selja og hvetjum við alla okkar stuðningsmenn til að kaupa miða af söluaðilum Akureyrar.
Forsala á leik Akureyrar og Stjörnunnar hefst í Íþróttahöllinni í dag á leik Akureyrar og FH en í Reykjavík er hægt að kaupa miða á BK-Kjúklingi á Grensásveginum.
Aðrir sölustaðir verða auglýstir á allra næstu dögum.