Akureyri með heimaleik gegn Víkingi á fimmtudag

Akureyri tekur á móti Víking á fimmtudaginn í KA-Heimilinu klukkan 19:00. Leikurinn er gríðarlega mikilvægur, Víkingar eru á botni deildarinnar en hafa verið að sækja í sig veðrið. Með sigri mun Akureyrarliðið skilja sig enn betur frá botnbaráttunni og koma sterkar inn í baráttuna fyrir miðri deildinni en tapist leikurinn er orðið stutt í neðstu liðin.

Víkingar sóttu sér skyttu til Litháen á dögunum, Karolis Stropus að nafni og óhætt að segja að hann hafi heldur betur hleypt lífi í Víkingsliðið. Í leiknum gegn FH skoraði hann 11 mörk, 6 á móti Aftureldingu og 8 á móti ÍR. Alls hefur hann skorað 53 mörk í 7 deildarleikjum eða 7,5 mörk að meðaltali í leik. Það er ljóst að Akureyrarliðið þarf að stöðva hann með öllum tiltækum ráðum á fimmtudaginn.

En Stropus er ekki eina skyttan sem Víkingar hafa í sínum herbúðum, Atli Karl Bachmann kom til liðsins í haust frá HK og hefur verið að stimpla sig inn í leik Víkinga upp á síðkastið, kominn með 46 mörk í 15 leikjum. Þá hafa Víkingar endurheimt úr meiðslum skyttuna Jóhann Reyni Gunnlaugsson en hann hefur skorað 45 mörk í 10 leikjum.

Tveir fyrrum leikmenn Akureyrar eru í leikmannahópi Víkinga, það eru hornamaðurinn Daníel Örn Einarsson og skyttan Arnór Þorri Þorsteinsson. Að sjálfsögðu bjóðum við þá velkomna til leiks.

Þjálfari Víkinga er Ágúst Þór Jóhannsson sem jafnframt er þjálfari íslenska kvennalandsliðsins.

Liðin mættust á heimavelli Víkinga í byrjun október og var sá leikur stál í stál í fyrri hálfleik en í seinni hálfleik tók Akureyri völdin á vellinum og vann að lokum níu marka sigur 21-30. Í þeim leik var Bergvin Þór Gíslason markahæstur Akureyringa með 7 mörk en hjá Víkingum voru Jóhann Reynir Gunnlaugsson og Hjálmar Þór Arnarson með 5 mörk hvor.

Síðan þá hafa Víkingar fengið til sín áðurnefndan Stropus og verið á mikilli siglingu í síðustu leikjum þannig að það verður ekkert gefið eftir á fimmtudaginn. Hlutur áhorfenda er því ákaflega mikilvægur eins og alltaf og því hvetjum við alla til að mæta á leikinn og styðja okkar lið til sigurs, áfram Akureyri!