Akureyri með heimaleik gegn ÍBV á laugardaginn klukkan 13:30

Það er komið að öðrum heimaleik Akureyrar Handboltafélags í Olís-deildinni. Að þessu sinni eru það nýliðarnir í deildinni, Vestmannaeyingar sem mæta til leiks eftir fimm ára fjarveru úr efstu deild.
Leiktíminn og dagurinn er óvenjulegur að þessu sinni og því skal ítrekað að leikurinn hefst klukkan 13:30 eða hálftvö á laugardaginn.
Ástæðan er sú að Eyjamenn þurfa að komast heim áður en flugvöllurinn í Eyjum lokar.


Þrátt fyrir þennan tíma verður flest með hefðbundnu sniði, opið gæsluherbergi fyrir yngstu börnin og þess háttar. Þó verður aðeins annar bragur á veitingunum í stuðningsmannaherberginu fyrir leik, annaðhvort verður boðið upp á brauðmeti eða graut og slátur.

Um ÍBV - mótherja Akureyrar á laugardaginn
Það eru fimm ár síðan ÍBV lék síðast í úrvalsdeild en síðasti leikur liðsins vorið 2008 var einmitt gegn Akureyri. Vestmannaeyingar unnu 1. deildina með töluverðum yfirburðum síðasta vor og ætla án vafa að berjast í efri hluta úrvalsdeildarinnar í ár.

Þeir hafa styrkt lið sitt mikið fyrir átökin í vetur. Þar ber fyrst að nefna að þeir réðu nýjan þjálfara, Gunnar Magnússon sem hefur verið aðstoðarlandsliðsþjálfari undanfarin ár auk þess að þjálfa Kristiansund, lið Jónatans Magnússonar í Noregi síðastliðin þrjú ár.

ÍBV hefur einnig fengið til sín öfluga leikmenn, athygli vakti í haust þegar Róbert Aron Hostert, fyrrum leikmaður Fram hætti við að fara erlendis en gekk til liðs við Eyjamenn. Tveir erlendir kappar komu til liðsins, hægri skyttan Filip Scepanovic, frá Serbíu sem er gríðarlega reyndur leikmaður svo og slóvenskur línumaður, landsliðsmaðurinn Matjaz Mlakar.
Þá fengu þeir Agnar Smára Jónsson frá Val og hafa endurheimt Andra Heimi Friðriksson úr meiðslum.

Eini leikmaðurinn sem ÍBV hefur misst frá því í fyrra er Nemanja Malovic sem átti reyndar frábært tímabil í fyrra og var langmarkahæsti maður liðsins í 1. deildinni.

Akureyringar munu án efa taka vel á móti skyttunni, Magnúsi Stefánssyni frá Fagraskógi en þessi fyrrum leikmaður Akureyrar hefur verið í herbúðum Eyjamanna síðastliðin tvö ár. Magnús lék síðast með Akureyri þann 3. maí 2008 en það var einmitt gegn ÍBV. Um haustið gekk Magnús til liðs við Fram og lék með þeim þar til hann fluttist til Eyja.


Magnús í síðasta leik með Akureyri, einmitt gegn ÍBV vorið 2008

Eyjamenn hófu úrvalsdeildina með glæsilegum átta marka sigri á bikarmeisturum ÍR. Þeir voru fjórum mörkum undir í hálfleik en tóku öll völd á vellinum í seinni hálfleik og völtuðu yfir heimamenn. Þar var Theodór Sigurbjörnsson markahæstur með 8 mörk, Róbert Aron Hostert með 6 og Grétar Þór Eyþórsson með 5 mörk, Matjaz Mlakar 2, Andri Heimir Friðriksson 2, Filip Scepanovic 2, Sindri Haraldsson 1, Guðni Ingvarsson 1 og Magnús Stefánsson 1. Varnarleikur liðsins small saman í seinni hálfleiknum undir forystu Sindra Haraldssonar og þar fyrir aftan átti markvörðurinn Haukur Jónsson stórleik.

Í annarri umferð fengu Eyjamenn Hauka í heimsókn og má segja að sá leikur hafi þróast gjörólíkt ÍR leiknum, jafnt var í hálfleik 10-10 en í seinni hálfleik hrundi leikur þeirra og Haukar unnu tólf marka sigur 18-30. Þess má geta að varnarjaxlinn Sindri fékk beint rautt spjald og trúlega veikti það vörnina verulega.
Í leiknum gegn Haukum var markaskorun liðsins þannig: Andri Heimir Friðriksson 4,Filip Scepanovic 3, Agnar Smári Jónsson 2, Matjaz Mlakar 2, Theodór Sigurbjörnsson 2, Grétar Eyþórsson 2, Magnús Stefánsson 1, Róbert Aron Hostert 1 og Guðni Ingvarsson 1.
Atkvæðamestu leikmenn ÍBV í fyrra, fyrir utan Nemanja, voru þeir Theodór og Andri Heimir með 95 mörk í deildinni, Grétar Þór Eyþórsson með 89 mörk og Magnús Stefánsson með 58 mörk.

Á heimasíðu Akureyrar eru upplýsingar um leikmenn liðsins og nýjar myndir Þóris Tryggvasonar af þeim flestum.
Sjá leikmannalistann og nánari upplýsingar

Það má bóka hörkuleik á laugardaginn þar sem bæði liðin ætla sér að kvitta fyrir tapaða leiki síðustu umferðar. Við hvetjum stuðningsmenn Akureyrar til að mæta tímanlega og sýna að það er ekki að ástæðulausu að þeir hafa undanfarin ár verið útnefndir bestu stuðningsmenn landsins. Áfram Akureyri.

Miðaverð er óbreytt frá því á fyrra, 1.500 krónur fyrir fullorðna en 500 krónur fyrir yngri.

Með von um að þú komir í Höllina á laugardaginn.
Leikmenn og stjórn Akureyrar Handboltafélags.