Akureyri með heimaleik gegn Gróttu í dag, mánudag

Eftir góða sigra í síðustu tveim leikjum hefur heldur betur lifnað yfir stemmingunni í kringum Akureyrarliðið. Stuðningsmenn lögðu svo sannarlega sitt að mörkum með frábærri stemmingu í síðasta heimaleik sem var gegn Fram í síðustu viku og í kjölfarið skiluðu strákarnir hreint mögnuðum leik gegn Víkingum.

Nú þurfa allir að leggjast á eitt með að halda áfram á sömu braut og næsta verkefni er því að taka á móti Gróttu í kvöld. Grótta vann 1. deildina síðasta vor og endurheimti þar með sæti sitt í deildinni eftir þriggja ára veru í 1. deild.

Þjálfari Gróttu er líkt og síðasta ár, reynsluboltinn Gunnar Andrésson. Grótta byggir að miklu leiti á sama mannskap og í fyrra en hefur þó styrkt hópinn nokkuð. Þar má t.d. nefna Finn Inga Stefánsson sem undanfarið hefur verið einn af lykilmönnum Vals og markvörðinn Lárus Helga Ólafsson sem hefur leikið með HK og Val síðustu árin. Þá fengu Gróttumenn línumanninn Guðna Ingvarsson frá ÍBV.

Að loknum sjö umferðum eru áðurnefndur Finnur Ingi langmarkahæstur Gróttumanna með 46 mörk en Finnur skoraði 13 mörk fyrir Gróttu gegn Fram í síðasta leik. Aðrir markaskorarar Gróttu eru , Aron Dagur Pálsson með 26 og Daði Gautason með 22. Gróttumenn eru til alls líklegir í vetur, unnu t.d. góðan sjö marka sigur á FH, 33-26 þannig að enginn skyldi vanmeta þá í deildinni.

Þess má geta að okkar frábæri hornamaður Kristján Orri Jóhannsson kom til Akureyrar frá Gróttu og lék einmitt með Gróttu þegar liðin mættust síðast hér á Akureyri í deildarleik, 10. nóvember 2011.


Kristján Orri skoraði eitt mark fyrir Gróttu í leiknum 2011

Leikurinn hefst klukkan 19:00 í kvöld, mánudag í KA heimilinu og við hvetjum alla til að fjölmenna á leikinn og styðja okkar lið til sigurs, áfram Akureyri!