Eftir þrjá útileiki í röð, reyndar fjóra ef bikarleikurinn er talinn með, er loksins komið að heimaleik hjá Akureyri Handboltafélagi þegar Fram kemur í heimsókn á laugardaginn. Hjá Fram ræður ríkjum góðkunningi okkar Guðlaugur Arnarsson sem lék um nokkurra ára skeið með Akureyri.
Þetta er annað árið hjá Gulla sem þjálfari Fram en hann náði flottum árangri með ungt lið Fram í fyrra þrátt fyrir hrakspár. Framan af núverandi tímabili áttu Framarar í verulegum erfiðleikum, ekki síst vegna mikilla meiðsla lykilleikmanna. En Framarar hafa bitið frá sér í síðustu leikjum, þrír sigurleikir í röð, gegn HK og útisigur gegn Aftureldingu segja okkur að enginn skyldi vanmeta Framara.
Þar að auki sóttu þeir nýverið tvö stig til Vestmannaeyja í frestuðum leik þannig að Fram hefur heldur betur safnað að sér stigum í síðustu leikjum.
Línumaðurinn og vítaskyttan Garðar Benedikt Sigurjónsson er þeirra markahæstur með 53 mörk í deildinni. Þar á eftir koma Sigurður Örn Þorsteinsson og Stefán Baldvin Stefánsson með 49 og 48 mörk og nokkuð á eftir þeim kemur Ólafur Jóhann Magnússon með 28 mörk.
Í síðasta leik, gegn HK var Garðar með 8 mörk og Stefán Baldvin með 6 mörk. Þeir voru einnig drýgstir í sigrinum á Aftureldingu, Stefán með 6 mörk en Garðar með 5 stykki.
Sverre og Bergvin með góðar gætur á Garðari þegar liðin mættust í október
Það er rétt að hafa í huga að Fram sótti liðstyrk til ÍR inga eftir fyrstu sex umferðirnar og fengu til sín leikstjórnandann Kristinn Björgúlfsson sem hefur heldur betur reynst þeim dýrmætur í síðustu leikjum.
Akureyri og Fram mættust í Framheimilinu þann 11. október og þar fór Akureyri með góðan sex marka sigur eftir að hafa verið marki undir í hálfleik. Í þeim leik small vörnin heldur betur saman og Tomas var frábær í markinu. Það er allavega ljóst að þessir hlutir þurfa að vera í lagi á laugardaginn og menn albúnir að berjast frá upphafi því Fram liðið hefur einmitt sýnt það í síðustu leikjum að með ódrepandi baráttu þeirra sem eru inni á vellinum er allt hægt, þrátt fyrir meiðsli sterkra leikmanna.
Frábær barátta og stemming skilaði góðum sigri á Fram í október
Fram á reyndar áhugaverðan leik í kvöld í Coca Cola bikarnum þar sem þeir fá FH í heimsókn og verður örugglega barist af krafti í þeim leik.