Akureyri mætir HK í Höllinni á fimmtudaginn

Á morgun, fimmtudag er komið að heimaleik Akureyrar gegn HK, lærisveinum Bjarka Sigurðssonar. Þetta er leikur í 10. umferð Olís deildarinnar og hefst þar með annar hluti deildarinnar. Liðin mættust í Kópavogi í 1. umferðinni og þar fór Akureyri með fjögurra marka sigur 21-25.

Margir höfðu ekki trú á að lið HK myndi gera miklar rósir í vetur en þeir hafa heldur betur bitið frá sér, unnu fyrst Fram og fyrir stuttu síðan vann HK topplið Aftureldingar á útivelli og sýndi þar að það býr heilmikið í liðinu og enginn skyldi gefa sér fyrirfram sigur gegn þeim.


Bjarki Sigurðsson þjálfari HK. Mynd fimmeinn.is

Lykilmenn HK það sem af er hafa verið Þorgrímur Smári Ólafsson með 38 mörk, Leó Snær Pétursson 31 mark, Andri Þór Helgason 30, Garðar Svansson 26, Óðinn Þór Ríkharðsson 25 og Guðni Már Kristinsson 24 mörk.

HK menn urðu fyrir áfalli í leiknum gegn Aftureldinu þegar Óðinn Þór Ríkharðsson meiddist og allar líkur á að hann verði frá keppni um töluverðan tíma.

Akureyrarliðið verður án Elíasar Más Halldórssonar í leiknum þar sem hann tekur út leikbann. Nokkrir leikmenn liðsins urðu fyrir hnjaski í síðasta leik en það kemur í ljós á morgun í hvernig standi þeir verða. Heiðar Þór Aðalsteinsson missti af síðasta leik þar sem hann dvaldi á fæðingardeildinni en er mættur klár í slaginn aftur.

Hamborgarahryggur frá Norðlenska
Það verður mikil veisla fyrir stuðningsmannaklúbbinn fyrir leik þar sem boðið verður upp á úrvals hamborgarahrygg frá Norðlenska þannig að við hvetjum Gullkortahafa til að koma tímanlega og gæða sér á veisluföngum.

Það má búast við hörkuleik, Akureyri og HK eru einu liðin sem hafa sigrað Aftureldingu á tímabilinu þannig að Atli og strákarnir þurfa á öllum stuðningi að halda, sjáumst í Höllinni! Leikurinn hefst klukkan 19:00.