Eftir smá hlé í Olís-deildinni, sem hefur þó verið býsna viðburðaríkt hjá Akureyri Handboltafélagi, verður flautað til leiks á fimmtudagskvöldið þegar topplið deildarinnar, Afturelding kemur í heimsókn í Höllina. Það er óhætt að segja að Mosfellingar hafa heldur betur farið glæsilega af stað í deildinni en þeir léku í 1. deild á síðustu leiktíð eftir að hafa fallið úr úrvalsdeildinni vorið 2013.
Mosfellingar unnu fyrstu sex leikina í deildinni, gerðu síðan jafntefli gegn Haukum en töpuðu býsna óvænt í síðustu umferð fyrir HK á heimavelli.
Lið Aftureldingar er að mestu skipað sömu leikmönnum og unnu 1. deildina í fyrra en vissulega hafa orðið nokkrar breytingar á liðinu síðan þá. Nýr þjálfari, Einar Andri Einarsson tók við liðinu í sumar, Einar er þó langt frá því að vera nýgræðingur í starfi því hann hefur þjálfað meistaraflokk FH undanfarin ár og því vanur að vera í toppbaráttu með sitt lið.
Einar Andri Einarsson þjálfari Aftureldingar. Myndir: Björgvin Franz fimmeinn.is
Uppistaðan í liði Aftureldingar eru ungir og fjölhæfir leikmenn en þeir fengu reynslubolta í sínar raðir í sumar þegar Jóhann Gunnar Einarsson tók fram skóna eftir eins árs hlé en Jóhann varð Íslandsmeistari með Fram vorið 2013. Annar reynslubolti, Pálmar Pétursson, marvörður tók sömuleiðis fram skóna á ný og gekk til liðs við Aftureldingu en Pálmar hefur meðal annars leikið með FH og Val. Frá Akureyri fengu þeir hornamanninn Gunnar Þórsson Malmquist en hann var í herbúðum Akureyrar síðasta tímabil.
Talandi um tengsl við Akureyri þá er gaman að geta þess að hægri hornamaður Aftureldingar, Árni Bragi Eyjólfsson er sonur Eyjólfs Guðmundssonar rektors Háskólans á Akureyri og því ekki ólíklegt að Eyjólfur mæti á leikinn á fimmtudaginn.
Árni Bragi Eyjólfsson
Gunnar Þórsson Malmquist
Einn af styrkleikum Aftureldingar er sterk liðsheild og markaskorun liðsins dreifist á marga leikmenn. Markaskorar þeirra það sem af er mótinu hafa verið sem hér segir:
Jóhann Gunnar Einarsson 36
Jóhann Jóhannsson 29
Örni Ingi Bjarkason 21
Elvar Ásgeirsson 19
Gunnar Þórsson 19
Pétur Júníusson 19
Árni Bragi Eyjólfsson 17
Böðvar Páll Ásgeirsson 16
Jóhann Gunnar Einarsson, Jóhann Jóhannsson og Örn Ingi Bjarkason
Öflugur varnarleikur hefur einkennt leik liðsins í vetur enda margir sterkir og hávaxnir menn þar á ferðinni. Þar fyrir aftan hafa markverðirnir Davíð Svansson og Pálmar Pétursson farið á kostum. Enda hefur liðið fengið á sig fæst mörk allra liða í deildinni eða 172.
Það er því ljóst að það verður við ramman reip að draga í Höllinni á fimmtudaginn, gestirnir telja sig örugglega þurfa að svara fyrir tapið gegn HK í síðasta leik og Akureyrarliðið sömuleiðis að sanna sig fyrir nýjum þjálfara og sýna stuðningsmönnum loks sitt rétta andlit.
Þess má geta að tveir af núverandi leikmönnum Akureyrar Handboltafélags hafa leikið með Aftureldingu en það eru þeir Sverre Andreas Jakobsson sem lék með Aftureldingu um tveggja ára skeið, tímabilin 2001-2002 og 2002-2003 og línumaðurinn Þrándur Gíslason sem einmitt kom til liðs við Akureyri frá Aftureldingu fyrir síðasta tímabil.