Það er einfaldlega allt undir á föstudagskvöldið!
Nú er komið að okkur gott fólk! Akureyri tekur á móti ÍR í öðrum leik liðanna í 8-liða úrslitum Íslandsmótsins og verður að sigra!
Sigri Akureyri knýr liðið fram oddaleik en tapist leikurinn er tímabilið búið. Nú verðum við einfaldlega að troðfylla Höllina og sjá til þess að strákarnir sigri, og fái þriðja leikinn sem yrði þá á sunnudaginn í Breiðholtinu!
Athugið að leikurinn hefst klukkan 19:00 á föstudaginn (ekki 19:30 eins og upphaflega var fyrirhugað).
Við fengum að kynnast því á þriðjudaginn að færð og veður getur truflað og því hvetjum við þig til að fylgjast með fréttum, t.d. á heimasíðunni ef veðurútlit á föstudaginn verður vafasamt!
Annars er óþarfi að hafa mörg orð um þennan leik, strákarnir eru komnir með bakið upp að vegg og ætla að leggja alla sína orku í leikinn og knýja fram þriðja leikinn á sunnudaginn.
En eins og Atli Hilmarsson segir: Nú er að duga eða drepast á föstudaginn og ekkert annað að gera en treysta á okkur sjálfa og okkar frábæra stuðningsfólk. Áfram Akureyri!
Með von um að sjá þig í Íþróttahöllinni,
Leikmenn og stjórn Akureyrar Handboltafélags.