Akureyri - ÍR á fimmtudaginn

Akureyri tekur á móti ÍR í KA-Heimilinu á fimmtudaginn en liðin mættust í hörkuleik í fyrstu umferð deildarinnar. Strákarnir eru klárir í slaginn og ætla sér aftur á sigurbrautina.
Fjórir síðustu leikir Akureyrar síðastliðið vor voru einmitt gegn ÍR, síðasti leikurinn í deildarkeppninni og síðan þrír leikir í 8-liða úrslitunum. Allir voru þeir svakalegir spennuleikir. Deildarleikurinn var útileikur og þar vann Akureyri þriggja marka sigur, 27-30 þar sem Halldór Logi Árnason og Brynjar Hólm Grétarsson skoruðu sex mörk hvor. Brynjar var þarna að spila sinn fyrsta leik eftir langvarandi meiðsli.

Heiðar Þór Aðalsteinsson fór mikinn í fyrsta leiknum í úrslitakeppninni og skoraði 11 mörk. Heiddi var öruggur á vítalínunni og skoraði úr átta vítaköstum af níu sem liðið fékk. Næsti leikur var heimaleikur þar sem Akureyri jafnaði metin í einvíginu. Í þeim leik var Kristján Orri Jóhannsson aðalmaðurinn og skoraði sömuleiðis 11 mörk, þar af fimm úr fimm vítum.
Oddaleikurinn sem fór fram í Austurbergi var hreint út sagt rosalegur, liðin skiptust á að hafa forystuna en í lokin féll sigurinn ÍR megin, 24-22. Þetta var lokaleikur Heimis Arnar Árnasonar með liðinu og má svo sannarlega segja að Heimir hafi kvatt með stæl en hann var valinn maður Akureyrarliðsins í leiknum.

Það stefnir því í mikla spennu í KA heimilinu á fimmtudaginn, þetta er leikur sem þú vilt ekki missa af, áfram Akureyri!

Í upprifjun okkar á leikjum Akureyrar og ÍR rákumst við á upptöku af glæsilegu sirkusmarki Andra Snæs Stefánsson frá leik liðanna frá október 2012. Það er Jovan Kukobat markvörður sem á sendinguna á Andra.  Jovan leikur núna í markinu hjá Hapoel Ramat Gan frá Ísrael sem lék tvo leiki gegn ÍBV um nýliðna helgi í Áskorendakeppni Evrópu. Jovan var besti leikmaður liðsins í leikjunum en ÍBV fór áfram í keppninni.

Hér að neðan er markið hjá Andra, sjón er sögu ríkari:

Bikarleikur gegn Gróttu 2 á laugardaginn
Akureyri hefur leik í CocaCola bikarnum á laugardaginn þegar liðið tekur á móti Gróttu 2. Gróttumenn áttu heimaleikjaréttinn þar sem Akureyrarliðið er í efri deild. Raunar er Grótta 2 ekki að leika í neinni deild svo vitað sé en það varð að samkomulagi að Seltirningarnir kæmu norður og spiluðu hér.

Leikurinn hefur verið settur á klukkan 18:30 á laugardaginn í KA heimilinu. Á þessari stundu er lítið vitað um hverjir skipa lið Gróttu 2 og verður forvitnilegt að sjá hvort gamlar kempur mæti jafnvel til leiks. Verði á leikinn er stillt í hóf, aðgangur fyrir fullorðna er 1.000 krónur en frítt að vanda fyrir 15 ára og yngri.

Við minnum á þá nýbreytni í ár að Gullkortahafar þurfa ekki að greiða inn á bikarleiki og njóta þeir þess í fyrsta sinn á laugardaginn.