Eftir langa bið eftir heimaleik er hún loksins á enda því að í dag fáum við HK í heimsókn. Þótt ótrúlegt
megi virðast þá er þetta einungis annar heimaleikur Akureyrar á þessu ári en andstæðingarnir í síðasta heimaleik voru einmitt
líka HK.
Eftir sigra í síðustu þrem síðustu leikjum (öllum á útivöllum) er Akureyri komið í 4. sæti N1 deildarinnar, stigi á
eftir HK sem er í 3. sætinu. Baráttan um sæti meðal fjögurra efstu liða er gríðarhörð og ekkert má gefa eftir til að halda
því. Það má því líta á alla leikina fimm sem eftir eru í deildinni sem hreina úrslitaleiki.
Í síðasta leik liðanna má segja að allt hafi verið á suðupunkti en HK náði að knýja fram tveggja marka sigur á
lokamínútu leiksins. Óhætt er að fullyrða að baráttan verður ekki síður í fyrirrúmi í dag og ljóst að
Akureyri ætlar ekki að tapa tvisvar í röð fyrir HK á heimavelli.
Leikurinn hefst eins og venjulega klukkan 19:00, veitingar fyrir stuðningsmannaklúbbinn verða bornar fram um klukkan 18:15.