Akureyri: Heimaleikur og bikarafhending á fimmtudag kl. 19:30

Það verður heldur betur fjör í Íþróttahöllinni á fimmtudaginn þegar Akureyri Handboltafélag tekur á móti Aftureldingu úr Mosfellsbæ í næstsíðustu umferð N1 deildarinnar. Leikurinn hefst klukkan 19:30 sem er nokkru síðar en vanalega tíðkast. Ástæðan er sú að í reglum HSÍ er kveðið á um að allir leikir í tveim síðustu umferðum deildarinnar skuli fara fram samtímis.

Í leikslok á fimmtudaginn verður síðan stór stund í sögu handboltans hér á Akureyri en þá verður liðinu afhentur bikarinn sem tilheyrir Deildarmeistaratitlinum. Við treystum því að hinir frábæru stuðningsmenn fjölmenni á leikinn og taki þátt í bikarafhendingunni enda eiga stuðningsmenn liðsins drjúgan þátt í titlinum.


Oft hefur verið fagnað í Höllinni en nú verður heldur betur tilefni til þess

En víkjum að leiknum sjálfum, Afturelding og Akureyri hafa mæst þrisvar í vetur, tvisvar á Akureyri og einu sinni í Mosfellsbæ og Akureyri sigrað í öll skiptin. Sigurinn í Mosfellsbæ var þó torsóttur og lokatölur eins marks sigur 24-25.

Það er allt undir hjá Aftureldingu og því skyldi enginn gera sér grillur um auðveld stig á móti þeim. Afturelding er í baráttu upp á líf og dauða um sæti í úrvalsdeild en þeir eru jafnir Selfyssingum að stigum á botni deildarinnar.

Í síðustu leikjum Aftureldingar hefur gengið á ýmsu, liðið hefur ýmist verið að spila stórvel og er skemmst að minnast þess að Afturelding vann frækinn útisigur á Fram í fimmtándu umferð, 26-32. Í næstu leik á eftir unnu þeir á heimavelli sínum eins marks sigur á Haukum 25-24. Þar á eftir komu tveir leikir sem töpuðust stórt, fyrst með 11 mörkum gegn FH og síðan með 10 mörkum gegn HK á heimavelli sínum í Mosfellssveitinni. Valsmenn máttu kallast heppnir að fara með bæði stigin gegn Aftureldingu í síðustu umferð þannig að þeir eru sýnd veiði en ekki gefin.

Frá því að liðin mættust hér fyrr í vetur hefur Afturelding endurheimt Hilmar Stefánsson úr meiðslum en Hilmar hefur verið leiðtogi liðsins undanfarin ár og eflaus muna margir eftir honum frá því að hann lék hér á Akureyri með KA á árum áður.

Þó svo að Akureyri hafi þegar tryggt sér deildarmeistaratitilinn þá verður ekkert gefið eftir heldur leikið til sigurs og eins og áður hefur komið fram verður hátíðarstemming í leikslok þegar deildarmeistararnir verða krýndir og bikarinn fer á loft. Það er ekki á hverjum degi sem Akureyringar fá að upplifa slíkar stundir á heimavelli og því skorum við á alla sem vettlingi geta valdið til að fjölmenna, troðfylla Íþróttahöllina og taka þátt í gleðinni.