Akureyri: Heimaleikur gegn Val á fimmtudaginn

Eftir dönsku handboltaveisluna í sjónvarpinu að undanförnu er nú komið að því að fá lifandi karlahandbolta hér á heimavelli og tilhlökkun að verða aftur hluti af alvöru stemmingu. Það eru Valsmenn sem koma í heimsókn á fimmtudaginn, enginn annar en Ólafur Stefánsson sem mætir með sína kappa.

Þar eru fremstir í flokki frændurnir Guðmundur Hólmar Helgason og Geir Guðmundsson sem gengu til liðs við Hlíðarendaliðið í sumar. Það er ekki ofsagt að þeir séu fremstir í Valsliðinu því þeir eru langmarkahæstir leikmanna Vals, Guðmundur Hólmar með 62 mörk og Geir með 45 eftir ellefu leiki í deildinni. Þar næstir eru Sveinn Aron Sveinsson með 38 mörk og Finnur Ingi Stefánsson með 31 mark.

Þetta eru allt leikmenn sem þarf að hafa góðar gætur á en í raun er Valsliðið mjög vel skipað. Þar nægir að nefna leikmenn eins og leikstjórnandann, Elvar Friðriksson, línumennina Orra Frey Gíslason og Ægi Hrafn Jónsson.
Að ógleymdum markvörðunum, Hlyni Morthens og Lárus Helgi Ólafsson sem alltaf standa fyrir sínu og hafa reynst Valsliðinu drjúgir í gegnum tíðina.


Guðmundur Hólmar tekur harkalega á Sissa í leik liðanna fyrr í vetur

Aðstoðarþjálfari Ólafs er landsliðsmaðurinn fyrrverandi Ragnar Óskarsson, uppalinn ÍR-ingur en lék um árabil í Frakklandi áður en hann sneri heim í sumar. Margir áttu von á að Ragnar myndi klæðast keppnisbúningnum í vetur og aldrei að vita nema hann leiki sinn fyrsta leik með Val á fimmtudaginn.


Spurning hvort Ragnar Óskarsson tekur fram keppnisskóna á fimmtudaginn?

Fyrir leikinn er Valur með 11 stig í Olís-deildinni en Akureyri með 8 stig en eiga leik til góða, margfrestaðan leik gegn ÍBV sem raunar átti að fara fram síðasta laugardag en var frestað eina ferðina enn. Að þessu sinni var frestunin ekki vegna samgönguerfiðleika heldur vegna velgengni íslenska landsliðsins, sem virtist koma HSÍ heldur betur á óvart.

Akureyrarliðið hefur æft af kappi í þessu langa hléi og verður forvitnilegt að sjá hvernig menn spjara sig. Liðið hefur saknað Bergvins Þórs Gíslasonar það sem af er tímabilinu en hann hefur verið að jafna sig eftir aðgerð á öxl sem hann gekkst undir í sumar. Það kemur í ljós á fimmtudaginn hvort Beggi klæðist Akureyrarbúningnum í fyrsta sinn á tímabilinu en hann er sem betur fer allur að koma til á ný.
Þá meiddist skyttan unga, Arnór Þorri Þorsteinsson í leik gegn HK í byrjun desember og hefur ekki getað æft af krafti síðan þannig að óvíst er með þátttöku hans að þessu sinni.

Leikurinn hefst klukkan 19:00 á fimmtudaginn og ekki þarf að efast um að leikmenn leggja allt í sölurnar enda í boði dýrmæt stig. Þar að auki hafa leikir liðanna ávallt verið æsispennandi og því sannkölluð veisla fyrir áhorfendur framundan í Höllinni.

Í stuðningsmannaherberginu verður að vanda heitur matur fyrir leik og á meðan leikurinn stendur er opið gæsluherbergi fyrir yngstu börnin þar sem þau geta leikið sér í ýmsum boltaleikjum.

2. flokkur liðannamætist síðan á föstudaginn klukkan 16:30 í Höllinni og það verður ekki síður forvitnilegur leikur.