Það er leikið þétt þessa dagana í Olís-deilda karla og það eru engir aðrir en Íslandsmeistarar Hauka sem mæta norður yfir heiðar á fimmtudaginn. Bæði liðin léku um síðustu helgi, Akureyri tapaði fyrir Aftureldingu á laugardaginn í leik sem var svekkjandi að fá ekki að minnsta kosti stig úr. Haukar léku á sunnudaginn frestaðan leik gegn ÍBV. Sá leikur var ákaflega sveiflukenndur, Haukar voru mjög ósannfærandi í fyrri hálfleik, 5-11 undir en tókst af alkunnri seiglu að komast yfir í seinni hálfleik, það dugði þó ekki til og ÍBV vann að lokum tveggja marka sigur.
Haukaliðið er ekki mikið breytt frá síðustu leiktíð, hægri skyttan Árni Steinn Steinþórsson er farinn erlendis og einnig urðu þjálfaraskipti hjá liðinu. Patrekur Jóhannesson lét af störfum og einbeitir sér að austurríska landsliðinu en við tók reynsluboltinn Gunnar Magnússon sem hafði þjálfað ÍBV tvö ár þar á undan og gert Eyjamenn að Íslandsmeisturum 2014 og bikarmeisturum 2015. Þannig að það er reynslubolti þar á ferðinni.
Akureyri og Haukar mættust þrisvar á síðasta tímabili, Haukar unnu fyrsta leikinn 24-23 í Hafnarfirði en Akureyri vann öruggan sigur 28-21 í öðrum leiknum þegar liðin mættust hér fyrir norðan og aftur góðan útisigur 20-25 í síðasta leiknum sem var í Hafnarfirði. Þannig að það má reikna með fjörugum leik hér á fimmtudaginn.
Sigurinn í öðrum leiknum í fyrra varð þó Akureyrarliðinu dýrkeyptur. Þrír lykilleikmenn meiddust illa, Heimir Örn Árnason sneri sig illa á ökkla strax í fyrstu sókn og skyttan Brynjar Hólm Grétarsson, sem leysti Heimi af hólmi handarbrotnaði í næstu sókn. Ekki var allt búið því Ingimundur Ingimundarson fékk mikið högg á höndina og fingurbrotnaði.
Þessi skakkaföll virtust þó bara þjappa liðinu saman og liðið valtaði yfir Haukana. Munurinn mestur níu mörk, 13-4 áður en Haukar náðu að skora sitt fimmta mark sem kom eftir rúmlega tuttugu mínútna leik. Það segir allt sem segja þarf um vörn og markvörslu Akureyrarliðsins. Liðið hélt Haukunum í skefjum allan leikinn og þrátt fyrir að Haukarnir hafi skorað síðustu þrjú mörk leiksins lauk honum með sjö marka sigri Akureyrar.
Mönnum var heitt í hamsi þegar liðin léku á Akureyri í fyrravetur
Um síðustu helgi var varnarleikur og markvarsla Akureyrarliðsins sömuleiðis hreint út sagt frábær. Nú þarf bara að byggja ofan á þann grunn og ef við bætist magnaður stuðningur af áhorfendabekkjunum má svo sannarlega lofa fjörugum handboltaleik á fimmtudaginn.
Leikurinn hefst klukkan 19:00, við minnum þá sem enn eiga eftir að ná sér í stuðningsmannakort, Gullkort eða Silfurkort á að fjárfesta í þeim fyrir leikinn og fá þannig sem mest fyrir aurinn.
Leikmenn meistaraflokks og 2. flokks Akureyrar eru þessa dagana með kortin til sölu og er hægt að snúa sér til þeirra með viðskiptin. Einnig er hægt að panta kortin á heimasíðu Akureyrar með því að smella á kortin hér neðar á síðunni) og að sjálfsögðu verða þau seld í miðasölunni fyrir Haukaleikinn á fimmtudaginn.
Líkt og mörg undanfarin ár er handhöfum Gullkorta boðið í heitan mat fyrir leikinn og síðan kaffiveitingar í hálfleik.
Gullkortið innifelur aðgang að öllum heimaleikjum Akureyrar, hvort sem er í deildarkeppninni, úrslitakeppnum eða bikarkeppninni. Auk þess er gullkortahöfum boðið upp á aðgang að stuðningsmannaherberginu en þar er í boði heitur matur fyrir leiki og kaffi í hálfleik. Auk ýmissa fríðinda sem tilkynntir verða síðar. Það er nýlunda í vetur að Gullkortið veiti jafnframt aðgang að heimaleikjum í bikar- og úrslitakeppninni. Verð á Gullkortinu 2015-2016 er 30.000 krónur.
Silfurkortið eða ársmiðinn er fyrst og fremst aðgöngumiði að öllum heimaleikjum liðsins í Olís deildinni (ekki bikar og úrslitakeppni). Silfurkorthafar þurfa því ekki að standa í röð í miðasölunni heldur ganga beint inn. Silfurkortið 2015-2016 kostar 20.000 krónur.
Boðið er upp á nokkrar greiðsluleiðir auk þess sem hægt er að semja um raðgreiðslur ef það hentar.
Hægt er að panta kort með því að smella á myndirnar af kortunum hér að ofan og að sjálfsögðu í KA heimilinu fyrir leikinn á sunnudaginn!
Sjáumst í KA heimilinu á fimmtudaginn
Leikmenn og stjórn Akureyrar Handboltafélags