Akureyri Handboltafélag á sterku móti í Þýskalandi

Akureyrar liðið tekur þessa dagana þátt í alþjóðlegu handknattleiksmóti í Þýskalandi ásamt ýmsum stórliðum Evrópu. Mótið heitir Der Handball Champions Cup og hefst í dag með tveimur leikjum í hvorum riðli. Akureyri leikur við slóvensku mestarana í RK Gorenje Valenje klukkan 19:00 að þýskum tíma sem myndi vera klukkan 17:00 að íslenskum tíma. Mótið er nú haldið í 11. sinn og í sjötta sinn sem það fer fram í bænum Dessau.

Það eru átta lið sem taka þátt í mótinu og leikur Akureyri Handboltafélag í A-riðli ásamt Gorenje og þýsku liðunum Gummersbach og heimamönnum í Dessau Rosslauer.

Í B riðli eru þýsku liðin HSG Wetzlar og DHFK Handball Leipzig ásamt franska liðinu Saint-Raphaël og Hvít-Rússneskum meisturunum í Dinamo Minsk.

Leikirnir í A-riðli fara fram í bænum Hohenmölsen, klukkan 17:00 leika Gummersbach og Dessau Rosslauer HV en klukkan 19:00 leika Akureyri og Gorenje.

Það er ekki laust við að Akureyrarliðið verði innan um ýmsar þekktar kempur á mótinu, fyrstan skal nefna íslenska landsliðsmanninn Arnór Atlason sem spilar með Saint-Raphaël. Nýjasti leikmaður HSG Wetzlar er enginn annar en einn albesti leikmaður heims undanfarin ár, Ivano Balic en hann gekk í raðir þýska liðsins síðastliðinn mánudag. Á heimasíðu mótsins sést að þeir Arnór og Balic eru mættir á mótstað.


Arnór Atlason ásamt þjálfara sínum skoða verðlaunagrip mótsins.


Ivano Balic er einnig mættur á svæðið

Annars er það að frétta af Akureyrarliðinu að strákarnir léku á miðvikudaginn æfingaleik gegn þýska 3. deildarliðinu Ziegelheim og unnu þar góðan sigur, 15–24.  Á þriðjudagskvöldið lék Akureyri æfingaleik gegn ÍR í Breiðholtinu og vann þar fimm marka sigur.


Mynd frá leiknum gegn Ziegelheim. Smelltu á myndina til að lesa pistil frá strákunum.

Við minnum á heimasíðu Akureyrar Handboltafélags http://www.akureyri-hand.is/ þar koma reglulega  fréttir af Þýskalandsferðinni.