Akureyri - FH í 8 liða úrslitum Símabikarsins á miðvikudaginn

Það er leikið þétt í handboltanum þessa dagana. Á miðvikudaginn verður einn stærsti leikur tímabilsins þegar Akureyri tekur á móti sjóðheitum FH-ingum í átta liða úrslitum Símabikarsins. Þessi lið hafa mæst í bikarkeppninni undanfarin fimm ár og hafa leikirnir ávallt verið gríðarlegir baráttuleikir.

Akureyrarliðið sýndi frábæra spretti í tveim síðustu leikjum, gegn Val og Haukum og vantaði aðeins herslumuninn til að klára þá báða. Með góðum stuðningi áhorfenda ætla strákarnir tvímælalaust að selja sig dýrt á miðvikudaginn.

FH liðið hefur verið á miklu skriði í síðustu leikjum og munar þar mikið um endurkomu Ásbjörns Friðrikssonar í raðir FH eftir að hafa leikið í Svíþjóð undanfarið eitt og hálft ár. Ási er klárlega einn mikilvægasti maður FH liðsins eins og sást best í sjónvarpsleiknum á laugardaginn þegar FH skellti Haukum býsna örugglega.


Ási í sigurleik FH gegn Haukum á laugardaginn. Mynd Heiða/sport.is

Ási er þó alls ekki eini snillingurinn í FH liðinu, þegar liðin mættust hér á Akureyri í fyrstu umferð N1 deildarinnar var það skyttan Ragnar Jóhannsson sem var allt í öllu og skoraði 13 mörk. Ragnar er markahæstur FH inga í N1 deildinni en einnig er hornamaðurinn Einar Rafn Eiðsson drjúgur markaskorari. Einn mikilvægasti leikmaður FH liðsins er þó markvörðurinn Daníel Freyr Andrésson, sem er klárlega einn sá öflugasti í deildinni og hefur verið viðloðandi íslenska landsliðið í vetur.

Það er rétt að benda handhöfum stuðningsmannaskírteina Akureyrar á að þau gilda ekki sem aðgöngumiði á bikarleiki en að sjálfsögðu ganga þeir sem hafa fest sér sæti að þeim vísum. Auk þess sem veitingar verða í stuðningsmannaherberginu að vanda.