Það er að koma að lokum Olís deildarkeppninnar hjá karlaliðunum en næstsíðasta umferðin verður spiluð í kvöld. Þrátt fyrir að ljóst sé að Haukar séu deildarmeistarar og að Víkingar og ÍR falli þá er heilmikil barátta um sæti 3 til 8 í deildinni og þar með hvaða lið mætast í átta liða úrslitunum.
Í kvöld tekur Akureyri á móti Aftureldingu en það er skilyrði að allir leikir umferðarinnar fari fram á sama tíma og því verður flautað til leiks klukkan 19:30.
Liðin mættust hér á Akureyri í mögnuðum leik þann 12. nóvember þar sem Akureyri vann góðan fimm marka sigur, 25-20.
Afturelding sótti nýjan leikmann í landsleikjahléinu í janúar þar sem þeir fengu Mikk Pinnonen frá Eistlandi og hefur hann farið á kostum með liðinu jafnt sem skytta og leikstjórnandi. Mikk hefur skorað 43 mörk í sjö leikjum eða rúmlega sex mörk að meðaltali í leik. Tveir leikmenn fóru hins vegar frá Aftureldingu, línumaðurinn Ágúst Birgisson fór til FH og leikstjórnandinn Bjarki Lárusson fór til Fjölnis.
Síðustu leikir Aftureldingar hafa verið miklir baráttuleikir, þeir töpuðu í síðustu umferð fyrir FH 23:25, þar á undan sóttu þeir eins marks sigur á ÍR í Austurbergi, 24:25 þar sem okkar fyrrum samherjar Þrándur Gíslason og Gunnar Þórsson áttu stórleik.
Þrándur og Gunnar hugsi í fyrri leik liðanna hér í vetur
Orkulyklahappdrættið veglegir vinningar
Allir sem hafa virkjað Akureyrarlykil Orkunnar ættu að hafa fengið SMS í dag frá Orkunni þar sem þeim er boðið á leikinn (þurfa bara að sýna SMS-ið á símanum sínum við innganginn).
Jafnframt eru þeir þátttakendur í glæsilegu happdrætti en það verður einmitt dregið í hálfleik í kvöld og tilkynnt um vinningshafa í happdrættinu.
Vinningar í happdrættinu eru:
10.000 króna eldsneytisinneign hjá Orkunni
Keppnistreyja Akureyrar Handboltafélags
Gisting á Storm Hótel Reykjavík með morgunverði fyrir tvo
5.000 krónu inneign hjá Greifanum
Hádegisverður fyrir tvo á veitingastaðnum Múlaberg