Akureyri tekur á móti Aftureldingu í KA-Heimilinu á fimmtudaginn klukkan 18:30. Leikurinn er liður í 12. umferð Olís deildarinnar en Akureyri hefur reyndar aðeins leikið 10 leiki þar sem útileik gegn ÍBV var frestað fyrr í vetur.
Akureyri er með 6 stig í 9. sæti deildarinnar á meðan Afturelding er með 12 stig í 5. sætinu. Afturelding sem endaði í 2. sæti bæði í deildinni og á Íslandsmótinu í fyrra hefur verið í smá erfiðleikum með að halda stöðugleika það sem af er móti.
Á sama tíma hefur Akureyri verið að leika betur og betur eftir afar erfiða byrjun á tímabilinu, skemmst er að minnast hve stutt liðið var frá því að leggja topplið Vals að velli á Hlíðarenda í síðustu umferð.
Strákarnir hafa nú unnið 4 af síðustu 6 leikjum sínum eftir að hafa tapað fyrstu 5 leikjum tímabilsins, það er því um að gera að mæta í KA-Heimilið og styðja strákana áfram til sigurs, með þessu áframhaldi mun liðið halda áfram að klífa töfluna, áfram Akureyri!
Því miður fór röng tímasetning á leiknum á auglýsingu í Dagskránni og á götuauglýsingar. Þar stendur að leikurinn hefjist klukkan 19:00 en rétt tímasetning er klukkan 18:30 og leiðréttist það hér með.
2. flokkur með heimaleik á laugardaginn í Höllinni
Lið Akureyrar í 1. deild annars flokks á heimaleik gegn Haukum á laugardaginn. Leikurinn verður í Íþróttahöllinni og hest klukkan 15:30. Akureyri 1 er án stiga eftir þrjá leiki en Haukar hafa 2 stig eftir 2 leiki.
Upphaflega átti Akureyri 2 að spila strax á eftir gegn KR í annarri deildinni en á síðustu stundu óskuðu KR-ingar eftir að leikurinn yrði færður og eins og staðan er núna hefur HSÍ orðið við þeirri beiðni og flutt þann leik til 9. janúar 2016.
Þannig að það er bara einn leikur hjá 2. flokki á laugardaginn og hvetjum við fólk til að koma í Höllina klukkan 15:30 og styðja strákana. Að sjálfsögðu er frítt inn á leikinn.
Með von um að sjá þig á leikjunum,
Leikmenn og stjórn Akureyrar Handboltafélags.