Annar dagur Norðlenska Greifamótsins er að kveldi kominn og er ljóst hvaða lið mætast í leikjum um sæti hjá körlunum en riðlakeppninni lauk í dag. Mikil spenna var í leikjum dagsins og sýndu öll liðin flott tilþrif og ljóst að undirbúningur fyrir komandi tímabil er vel á veg kominn.
Karlalið ÍR átti tvo leiki í dag og ákvað því að spila á tveimur liðum, ungmennalið þeirra mætti Gróttu í fyrsta leik dagsins og sýndi sprækt lið Breiðhyltinga flotta takta. Eftir jafnan og spennandi fyrri hálfleik leiddu Gróttumenn 11-12 en með sigri myndu þeir tryggja sér efsta sætið í Riðli 1. Sama spenna var í þeim síðari og var jafnt 17-17 er kortér lifði leiks. Þá tókst Seltirningum loksins að slíta sig frá ungu liði ÍR og unnu að lokum 22-28.
Mörk ÍR: Arnar Guðmundsson 5, Davíð Guðmundsson 4, Sveinn Agnarsson 4, Magnús Páll Jónsson 3, VIktor Sigurðarson 1, Ingólfur Þorgeirsson 1, Dagur Sverrir 1 og Agnar Waage 1.
Mörk Gróttu: Jóhann Reynir 6, Hannes Grimm 5, Árni Benedikt 5, Gunnar Hrafn 3, Sveinn Jose Rivera 3, Gellir 3, Alexander Jón 2 og Ágúst Emil 2.
Í seinni leiknum hjá körlunum mættu ÍR-ingar með aðalliðið sitt gegn KA og var ljóst fyrir leik að sigurliðið myndi keppa um 3. sætið á mótinu og tapliðið um það 5. Leikurinn var stál í stál og var jafnt á öllum tölum fyrstu 20 mínútur leiksins en þá kom frábær kafli hjá KA liðinu sem var manni færri og KA leiddi 14-11 er flautað var til hálfleiks.
Það tók gestina ekki langan tíma að jafna metin eftir hlé en KA leiddi leikinn áfram. Það var svo svipað og í fyrri hálfleik að KA kom með flottan kafla er síðari hálfleikur var rúmlega hálfnaður og eftir það hafði KA 3-5 marka forystu. Breiðhyltingum tókst ekki að brúa það bil og KA vann á endanum sannfærandi 28-24 sigur og leikur því um bronsið á morgun.
Mörk KA: Áki Egilsnes 8, Tarik Kasumovic 6, Dagur Gautason 4, Einar Birgir Stefánsson 4, Andri Snær Stefánsson 2, Einar Logi Friðjónsson 2, Sigþór Gunnar Jónsson 1 og Jón Heiðar Sigurðsson 1 mark.
Mörk ÍR: Kristján Orri Jóhannsson 7, Björgvin Hólmgeirsson 7, Bergvin Gíslason 4, Hrannar Jóhannsson 2, Pétur Hauksson 2, Ólafur Matthíasson 1 og Sveinn Sveinsson 1 mark.
Riðill 2 fór fram í Höllinni en í fyrri leiknum vann Stjarnan afar öruggan og sannfærandi sigur á HK. Stjarnan vann því báða sína leiki og mætir Gróttu í úrslitaleik á morgun. HK og Akureyri kepptu því um 2. sætið í riðlinum og eftir hörkuleik þurftu liðin að sætta sig við jafntefli 21-21 og endar Akureyri í 2. sæti þar sem liðið er með betri markatölu.
Það verður því Akureyrarslagur í leiknum um 3. sætið þar sem KA og Akureyri mætast. Grótta og Stjarnan leika til úrslita og ÍR og HK mætast í leiknum um 5. sætið.
Kvennamegin þá mættust KA/Þór og ÍR í fyrri leik dagsins, fyrirfram var nú reiknað með sigri okkar liðs en ÍR stelpur voru mjög sprækar í fyrri hálfleik og var leikurinn hnífjafn í þeim fyrri og staðan að honum loknum 11-11 en KA/Þór leiddi þó ávallt.
Munurinn á liðunum kom betur í ljós í þeim síðari en þá stungu okkar stelpur af og náðu fljótt góðu forskoti. Þegar leið á sást betur og betur hvað okkar lið er í góðu formi og stungu hreinlega af. Er upp var staðið var munurinn 10 mörk og KA/Þór er því búið að vinna báða leiki sína á mótinu fyrir lokaleik sinn gegn Aftureldingu á morgun.
Mörk KA/Þórs: Ólöf Marín Hlynsdóttir 9, Hulda Bryndís Tryggvadóttir 6, Martha Hermannsdóttir 4, Rakel Sara Elvarsdóttir 4, Svala Svavarsdóttir 3, Una Kara Jónsdóttir 2 og Katrín Vilhjálmsdóttir 2 mörk
Mörk ÍR: Karen Tinna Demian 9, Hildur Marín Andrésdóttir 4, Sigrún Ásgrímsdóttir 3, Elín Birta 2, Jóhanna Viktorsdóttir 1 og Sara Kristjánsdóttir 1 mark.
Lokaleikur dagsins var svo leikur Ungmennaliðs KA/Þórs og Aftureldingar en þetta var fyrsti leikur Mosfellinga á mótinu. Hið unga lið KA/Þórs hóf leikinn af miklum krafti og leiddi í upphafi. Mest náðu stelpurnar þriggja marka forskoti og leit liðið ansi vel út. En gestirnir úr Mosfellsbænum eru öflugir og undir lok hálfleiksins sneru þær leiknum sér í vil og leiddu að honum loknum 12-16.
Gestirnir bættu við í upphafi þess seinni og náðu mest 5 marka forskoti en þá kom áhlaup frá heimastúlkum og minnkuðu þær muninn niður í eitt mark. Nær komust þær þó ekki og Afturelding fór að lokum með 22-25 sigur af hólmi.
Mörk KA/Þórs U: Svala Svavarsdóttir 10, Una Kara Jónsdóttir 5, Helga María Viðarsdóttir 3, Kristín Aðalheiður Jóhannsdóttir 2, Rakel Sara Elvarsdóttir 1 og Guðlaug Hrafnsdóttir 1 mark.
Mörk Aftureldingar: Kristín Arndís 8, Þóra Guðný 6, Ragnhildur 4, Drífa 2, Selma Rut 2, Rakel Dóra 1 og Katrín Helga 1 mark.
Á morgun ráðast úrslitin á mótinu og fara allir leikirnir fram í KA-Heimilinu sem þýðir að allir leikirnir verða sýndir beint á KA-TV. Dagskrá morgundagsins má sjá hér fyrir neðan og hvetjum við alla sem geta til að mæta og sjá flottan handbolta.
Laugardagur 25. ágúst |
|||
Staður | Tími | Keppni | Leikur |
KA-Heimilið | 09:30 | KVK | Afturelding - ÍR |
KA-Heimilið | 11:00 | KK | ÍR - HK (5. sæti) |
KA-Heimilið | 12:30 | KVK | KA/Þór - Afturelding |
KA-Heimilið | 14:00 | KK | KA - Akureyri (3. sæti) |
KA-Heimilið | 15:30 | KK | Grótta - Stjarnan (1. sæti) |
KA-Heimilið | 17:00 | KVK | KA/Þór U - ÍR |