Á laugardaginn mættust KA/Þór og FH í Olís-deild kvenna. Leikurinn byrjaði rólega og var mikið jafnræði með liðunum fyrstu mínúturnar. FH var þó skrefi á undan, komust tveimur mörkum yfir en stelpurnar í KA/Þór létu það þó ekki á sig fá og náðu að jafna leikinn og þannig stóðu leikar í hálfleik, 11-11.
Síðari hálfleikur byrjaði mun betur hjá FH sem komust yfir og náðu fljótt þriggja marka forskoti 12-15 en þær juku muninn og komust mest í 14-20. Þá tóku þjálfarar KA/Þórs leikhlé sem breytti leiknum gjörsamlega. Varnarleikurinn hjá heimastúlkum var gjörsamlega frábær og FH skoraði bara ekki. Sóknarleikurinn gekk líka vel upp og náði KA/Þór að jafna leikinn í 20-20 þegar skammt var eftir. Þegar rúmlega mínúta var eftir komst FH yfir 20-21 en KA/Þór svaraði í næstu sókn og jöfnuðu leikinn aftur í 21-21. Það var því FH sem fékk að því er virtist síðustu sóknina í leiknum en frábær vörn hjá Klöru Stefánsdóttur og Ernu Davíðsdóttur gerði það að verkum að FH missti boltann og fékk Þórunn Eva Sigubjörnsdóttir hraðaupphlaup en náði ekki að grípa boltann og FH náði að brjóta í fríkast og leiktíminn rann út. Það var Erna Davíðsdóttir sem tók fríkastið en markvörður FH rétt náði að verja boltann sem stefndi í samskeytin. Jafntefli var því niðurstaðan og er þetta fjórða jafnteflið hjá KA/Þór í vetur.
Mörk KA/Þór: Birta Fönn Sveinsdóttir 8, Katrín Vilhjálmsdóttir 6, Martha Hermannsdóttir 2, Þórunn Eva Sigurbjörnsdóttir 2, Arna Kristín Einarsdóttir 1, Klara Fanney Stefánsdóttir 1 og Laufey Lára Höskuldsdóttir 1.
Mörk FH: Ingibjörg Pálmadóttir 7, Jóna Sigríður Halldórsdóttir 5, Aníta Mjöll Ægisdóttir 3, Rakel Sigurðardóttir 3, Elín Anna Baldursdóttir 2 og Heiðdís Rún Guðmundsdóttir 1.
Næsti leikur hjá stelpunum er við Fram í Safamýrinni um næstu helgi og ætla stelpurnar sér ekkert annað en sigur í þeim leik.