Meistaraflokkur kvenna hjá KA/Þór hélt suður til Reykjavíkur nú á föstudaginn sl. í æfingaferð. Spilaðir voru þrír leikir í borginni, einn á föstudagskvöldinu og tveir á laugardeginum. Liðin sem spilað var við voru Valur, HK og Fylkir.
Leikið var við Val á föstudag og stelpurnar komu ákveðnar til leiks en náðu þó ekki alveg að stilla sig varnarlega og fékk línumaðurinn hjá Val oftar en ekki að leika lausum hala fyrir aftan vörn KA/Þórs. Hinsvegar var Kriszta, hin rúmenska, afar spræk í markinu og hélt norðanstúlkum inni í leiknum. Sóknarleikurinn var aftur á móti mun betri og var KA/Þór yfir framanaf í leiknum og komust m.a. í 3-7 og hélst munurinn lengst af í 2-3 mörkum KA/Þór í vil. Þegar líða tók á leikinn minnkaði Valur muninn jafnt og þétt og komst yfir í stöðunni 16-15 og 18-16.
Stelpurnar okkar náðu að stilla varnarleikinn og jöfnuðu leikinn í 18-18 og komust aftur yfir. Jafnt var fram á síðustu mínútu leiksins en þá náði Birta Fönn að skora og koma KA/Þór yfir í stöðunni 21-22 og Valur náði ekki að nýta sér þann litla tíma sem eftir var til þess að jafna metin og enduðu leikar því með sigri norðanstúlkna.
Þetta var flottur leikur hjá stelpunum og frábær barátta einkenndi leik liðsins. Varnarleikurinn gekk mun betur eftir að þjálfararnir fóru með liðið í framliggjandi vörn og heilt yfir getur liðið verið ánægt með leikinn.
Á laugardagsmorgninum var leikið við HK í Digranesinu. Liðið byrjaði þennan leik rétt eins og daginn áður, sem sterkari aðilinn í leiknum. Núna small 6-0 vörnin og voru stelpurnar gríðarlega flottar varnarlega. Sóknin gekk þó ekki alveg sem skildi en þó höfðu norðanstelpurnar alltaf 2-3 marka forskot en náðu að auka muninn í 4 mörk fyrir hálfleikinn. Því stóðu leikar 7-11 í hálfleik KA/Þór í vil.
Eins og staðan gefur til kynna var vörnin gríðarlega þétt og flott í fyrri hálfleik enda fengu stelpurnar einungis 7 mörk á sig á 30 mínútum sem telst mjög gott. Í síðari hálfleik þá náði HK að minnka muninn jafnt og þétt og jöfnuðu leikinn í 16-16 og náðu að komast yfir í stöðunni 18-17. Jafnt var á öllum tölum þangað til 40 sekúndur voru til leiksloka en þá fóru stelpurnar í sókn og náðu að komast aftur yfir 22-23. HK hélt í sókn þegar 15 sekúndur lifðu leiks og norðanstúlkur náðu ekki að brjóta í fríkast og HK skoraði og lokatölur því 23-23.
Hægt er að taka mikið af góðum punktum úr þessum leik eins og t.d. varnarleikinn í fyrri hálfleik og fullt af góðum punktum sóknarlega. Liðið getur verið sátt með leikinn enda einungis annar leikurinn á undirbúningstímabilinu og eftir hann liðið ennþá taplaust.
Seinni leikurinn á laugardeginum var svo við Fylki. Þetta var heldur þétt prógram á laugardeginum og voru stelpurnar orðnar mjög þreyttar enda komnar í þriðja leikinn sinn á innan við sólarhring. Stelpurnar náðu ekki að stilla strengina varnarlega í byrjun og komst Fylkir í 3-0. Munurinn hélst framan af fyrri hálfleiks í 2-3 mörkum Fylki í vil en þegar um 10 mínútur voru eftir af fyrri hálfleiknum þá náði Fylkir að keyra yfir norðanstúlkurnar og juku muninn í 7 mörk, 17-10.
Síðari hálfleikurinn var svo heldur jafnari en munurinn var á bilinu 6-8 mörk allan hálfleikinn og voru stelpurnar alveg dauðþreyttar þegar leiknum lauk með 8 marka sigri Fylkis, 30-22.
Lítið að marka þennan leik svosum, en engu að síður sitthvað af jákvæðum atriðum sem þjálfarar geta tekið til sín en einni ýmislegt sem hægt væri að gera betur.
Flott helgi og geta stelpurnar verið ánægðar með þessa leiki. Nú er tæpur mánuður í að mótið hefjist, en þann 20. september fara stelpurnar til Reykjavíkur í sinn fyrsta deildarleik á tímabilinu en sá leikur er við Val. Þremur dögum síðar, eða 23. september, spila stelpurnar svo við Fram hér á heimavelli í KA-heimilinu og viljum við að sjálfsögðu sjá sem flesta á pöllunum á þeim leik.