Aðalfundur Handknattleiksdeildar KA var haldinn
á dögunum og fór hann að venju vel fram. Ársreikningar deildarinnar voru samþykktir en bæði unglingaráð og kvennaráð voru
reknar réttu megin við núllið. Ný stjórn tók til starfa og er hún að nokkrum hluta skipuð sömu einstaklingum og áður.
Hér á eftir er ársskýrsla ráðanna tveggja.
Akureyri 15.03.10
Ársskýrsla Handknattleiksdeildar KA 2010
Innan Handknattleiksdeildar eru starfandi 2 ráð eins og áður, þ.e. kvennaráð sem rekur meistaraflokk kvenna og 3.fl. kvenna og síðan
er unglingaráð sem sér um yngri flokka, bæði stráka og stelpna. Ég minni á að allir kvennaflokkarnir í handbolta keppa undir merkjum
KA og Þórs.
Í stjórn eru Árni Grétar Árnason, Erlingur Kristjánsson, Jóhannes Bjarnason, Kristveig Atladóttir og Sigríður Hulda
Ingvarsdóttir. Stjórnin hefur fundað á 2-3 vikna fresti á árinu reksturinn gengið vel. Þær Kristveig og Sigríður
ætla að ganga úr stjórn og langar mig til að þakka þeim fyrir gott samstarf á þessum tíma. Í stað þeirra kemur Erla
Tryggvadóttir og síðan ræðst það af umfangi starfsins hvort við leitum eftir fleira fólki til að starfa með okkur.
Hlynur Jóhannsson og Stefán Guðnason þjálfuðu liðin okkar á síðasta keppnistímabili og við náðum fínum
árangri. 3.fl.endaði í 2. sæti í efstu deild og síðan 4. sæti í úrslitakeppninni en meistaraflokkur í 7. sæti í
N1 deildinni. Auk þess áttum við 4 landsliðsstúlkur í yngri landsliðum.
Sl. vor var ákveðið að halda áfram að leika í efstu deild og samkomulag gert við Jóhann Gunnar Jóhannsson um að þjálfa lið
meistaraflokks og Stefán Guðnason var ráðinn þjálfari 3.fl. Þegar leið fram á sl. sumar breyttust aðstæður og fæstir leikmenn
liðsins ætluðu að leika áfram af ýmsum ástæðum. Því var ekki um annað að ræða en hætta við að keppa
í efstu deild og Jóhann Gunnar missti við það áhugann á þjálfarastarfinu. Liðið hefur því keppt í 2. deild
í vetur og Martha Hermannsdóttir hefur verið spilandi þjálfari í liðinu. Sem stendur er liðið í 2. sæti í 2. deild og hefur
leikið vel. Lið 3.fl. sem náði mjög góðum árangri á síðasta tímabili er nú í 7. sæti í 1. deild
undir stjórn Stefáns Guðnasonar.
Nú stendur fyrir dyrum að fara að skoða næsta vetur. Við þurfum á næstu vikum að líta á þá möguleika sem
við höfum fyrir meistaraflokk, en það ræðst alfarið af áhuga og metnaði stelpnanna hvert verður stefnt, þ.e. hvort við veljum N1 deild
eða áfram 2. deild.
Rekstur deildarinnar hefur verið góður og auðvitað er mun ódýrara að senda lið í 2. deild en þá efstu. Margir hafa stutt vel
við bakið á okkur og ber að þakka fyrirtækjum á Akureyri þann stuðning. Auðvitað er nauðsynlegt að nefna Samherja í
þessu sambandi sem styrkir okkur dyggilega eins og svo mörg önnur íþróttafélög hér á svæðinu.
Að lokum langar mig að nefna að við handboltamenn þurfum að halda fund um stefnu deildarinnar á næstunni og festa á blað ýmislegt sem við
kemur keppni, uppbyggingu æfinga, ferðalögum o.fl. eða sem sagt að búa til handbók fyrir deildina til að starfa eftir.
Erlingur Kristjánsson
Frá Unglingaráði
Starf stjórnar Unglingaráðs Handknattleiksdeildar hefur verið með nokkuð hefðbundið í vetur.
Í stjórn unglingaráðs eru Sigurður Tryggvason, Sigríður Jóhannsdóttir, Hannes Pétursson , Sigurður Baldursson, Jón
Árelíus Þorvaldsson og Halldór Karlsson. Fundir hafa verið haldnir reglulega í vetur.
Iðkendur eru um 240 talsins í dag og er fjölgun frá því fyrra, og til gamans má nefna að nú eru um 35 strákar sem æfa í 3.fl.
karla.
Í byrjun hausts voru haldnir fundir með foreldrum og farið yfir verkefni vetrarins. Á þeim fundum voru stofnuð foreldrafélög í 5. og 6.
flokki.
Haldið var stórt mót í byrjun október í 6. fl. með u.þ.b. 450 þátttakendum , það mót héldum við með
Þór og hefur samstarfið við Þór verið mjög gott. Sl.vor var einnig haldið mót í 5.fl.með rúmlega 200
þátttakendum.
3.fl. karla varð Íslandsmeistari sl.vor undir stjórn Jóhanns Gunnars Jóhannssonar og Sævars Árnasonar . 3. fl.karla varð einnig bikarmeistari
nú í febrúar og eru í harði baráttu í sínum deildum, einnig varð 4. fl. kvenna deildarmeistari í 2. deild nú í
mars.
Stjórnin stóð fyrir B- stigs dómaranámskeiði nú nýlega og mættu þar 15 manns frá KA og Þór og þreyttu
prófið.
Sigurður Tryggvason