5. flokkur KA/Þór gerir það gott - myndir

5. flokkur kvenna yngra ár gerði góða ferð suður um liðna helgi. KA/Þór hafði tvö lið skráð til leiks, annars vegar lið KA/Þór1 sem var skipað reynslumeiri leikmönnum og KA/Þór2 sem var skipað leikmönnum sem eru að stíga sín fyrstu skref í íþróttinni og þeim sem hingað til hafa reynt að hafa sig til hlés inn á vellinum.


Þar sem um fyrsta mót vetrarins var að ræða er ekki komin rétt deildarskipting á Íslandsmótið og lentu KA/Þór2 stúlkur því í að vera nánast eingöngu með A liðum félaga í deild. Fyrir vikið var ljóst að mótið yrði nokkur brekka fyrir þær. Hins vegar var viðhorf stelpnanna til fyrirmyndar og þrátt fyrir óhagstæða tölur á stigatöflunni bættu stelpurnar sig með hverjum leik og fóru að ná betri og betri tökum á íþróttinni. Stelpur sem hingað til hafa látið sér nægja að bíða eftir að liðsfélagi þeirra tæki af skarið fengu þarna ábyrgðarhlutverk í hendurnar og þurftu sjálfar að taka af skarið og leystu það með ágætum.

Eins og áður sagði var viðhorf stúlknanna til fyrirmyndar og létu þær ekki ósigra á sig fá heldur efldust með hverjum leik. Það er nóg eftir af þessum vetri og ef þær halda áfram að vera duglegar að æfa er engin leið að sjá hversu miklum framförum þær geta náð.

KA/Þór1 lék í deildinni fyrir ofan, 2. deild. Strax frá fyrsta leik var ljóst að stelpurnar ætluðu ekki að gefa þumlung eftir. Gríðarlega sterk vörn og mikil barátta skilaði hverjum sigrinum á fætur öðrum. Ef ein misteig sig í vörninni var næsta tilbúin að koma og hjálpa og áttu mótherjarnir oft á tíðum í stökustu vandræðum í sókninni. Það sem fór í gegn var síðan oftast nær varið, en boltinn virtist hreinlega sogast í átt að markmanni KA/Þór1.

Svo fór að fyrir síðasta leikinn voru KA/Þór1 stúlkur búnar að tryggja sér sigur í deildinni. Sem reyndist eins gott því síðasti leikurinn var þeirra slakasti leikur og tapaðist hann naumlega.

Stelpurnar börðust til síðasta blóðdropa í öllum leikjunum og eins og áður sagði, gáfu ekkert eftir. Sóknin var heldur brothætt en það var í lagi þar sem vörn og hraðaupphlaup bættu upp fyrir hikstandi sókn.

Á næsta móti munu stelpurnar því leika í efstu deild og ef þær æfa af krafti þangað til, leggja sig fram á æfingum og bæta það sem þarf að bæta fyrir það mót munu þær standa sig vel þar líka.

Utan vallar voru stelpurnar félagi sínu og heimilum til sóma. Þessi 16 stúlkna hópur lét ekki hafa mikið fyrir sér og var hegðun þeirra utan vallar til stakrar prýði.
Þetta eru duglegar og kraftmiklar stelpur sem gaman verður að fylgjast með í framtíðinni.

Kv. Þjálfarar.


Stelpurnar kátar með bikarinn. Á myndina vantar Kolbrúnu Gígju Einarsdóttur annan þjálfara liðsins.