Það var hörkuleikur í KA-Heimilinu í dag þegar Deildarmeistarar KA tóku á móti Selfoss í undanúrslitum Íslandsmótsins í 4. flokki karla í handbolta. Liðin höfðu unnið sitthvorn leikinn í vetur og var gríðarleg spenna í leik liðanna í dag.
KA byrjaði leikinn ögn betur og leiddi til að mynda 11-9 eftir um 19 mínútna leik en þá kom góður kafli hjá gestunum og Selfoss leiddi 12-15 þegar flautað var til hálfleiks.
Sama spenna var í síðari hálfleiknum enda sæti í úrslitum í húfi, bæði lið spiluðu glimrandi sóknarleik en það á kostnað varnarinnar. Selfyssingun tókst á endanum að landa 32-34 sigri og eru því komnir áfram á meðan KA liðið situr eftir með sárt ennið.
Niðurstaðan vissulega vonbrigði enda KA með mjög flott lið, Arnór Ísak Haddsson skoraði alls 17 mörk í leiknum en það dugði ekki til og strákarnir því komnir í sumarfrí. Liðið getur þó glaðst yfir því að hafa unnið Deildarmeistaratitilinn og verður gaman að sjá til strákanna á næsta ári en þeir munu leika í 3. flokki á næsta tímabili.