4. flokkur kvenna spilaði í Reykjavík um liðna helgi

A liðið átti tvo leiki en B liðið átti þrjá leiki fyrir höndum. 

A liðið spilaði á föstudagskvöldið gegn Haukum og unnu nokkuð þægilegan sigur 18-31. Stelpurnar keyrðu hratt og voru sífellt ógnandi í sókninni. Vörnin var gríðarlega þétt og það sem fór fram hjá vörninni endaði oftast í markmönnum liðsins. 
Á laugardeginum spilaði liðið síðan gegn Stjörnunni og unnu stórsigur 7-30 eftir að hafa verið 11-2 yfir í hálfleik. Varla var hægt að finna feilspor hjá liðinu í þessum leik. Hraðaupphlaup, seinni bylgja, uppstillt sókn, vörn, markvarsla, allt voru þetta einstaklega vel útfærðir þættir í virkilega góðum leik KA/Þórs stúlkna. 
Í báðum leikjunum spiluðu stelpurnar virkilega vel. Voru mjög grimmar í vörninni og sóknarlega voru allar beittar þannig að erfitt var fyrir andstæðinginn að taka eina út. Þegar ein var tekin út stigu aðrar upp og gengu á lagið. 

Næstu leikir A liðsins eru um næstu helgi í KA heimilinu gegn liði HK. HK stelpur hafa verið á mjög góðu róli í deildinni frá því að þær töpuðu fyrir KA/Þór í nóvember. HK er nú í harðri baráttu við ÍBV og KA/Þór um efsta sætið í deildinni þannig að ljóst er að þetta verða hörkuleikir. 
Leikirnir eru klukkan 17:00 í KA heimilinu á laugardaginn og klukkan 11:00 á sunnudaginn. Um að gera að mæta og hvetja stelpurnar áfram ásamt því að stelpurnar spila virkilega skemmtilegan handbolta sem skemmtilegt er að fylgjast með. 

B liðið 

Stelpurnar í b liði hafa verið á ágætis róli í vetur. Fyrir leiki helgarinnar höfðu þær einungis tapað tveimur leikjum gegn Fram1 á heimavelli. Á föstudeginum spiluðu þær gegn liði Stjörnunnar í Mýrinni. Úr varð hörku handboltaleikur þar sem margar af KA/þór stelpum áttu sinn besta leik í vetur. Hins vegar spilaði lið Stjörnunnar einnig virkilega vel og úr varð naumt tap gegn sterku liði Stjörnunnar. KA/Þór stelpurnar verða ekki sakaðar um að hafa ekki reynt og geta borið höfuðið hátt eftir þennan leik. Stundum vinnurður og stundum taparðu en svo lengi sem þú leggur þig allan í verkefnið er ekki við þig að sakast ef það gekk ekki upp í leikslok. 

Á laugardeginum áttu stelpurnar leik við KR, lið sem þær hafa unnið tvisvar í vetur. Því miður mættu þær engan veginn tilbúnar til leiks í þetta skiptið og KR stelpur unnu nokkuð léttan sigur gegn hálf andlausu liði KA/Þór sem þrátt fyrir ágætis tilburði inn á milli veittu enga alvöru mótspyrnu í leiknum. Svekkjandi níu marka tap því staðreynd, svekkjandi að því leitinu til að stelpurnar vita að þær geta svo miklu miklu meira en þær sýndu í leiknum. 

Á sunnudeginum áttu þær leik við lið Fram2. 
Leikurinn var heilt yfir skárri heldur en leikurinn daginn áður. Stelpurnar börðust betur en skorti oft á tíðum kjark og virtist stundum sem einbeitingin væri ekki á leiknum. Leikurinn var í járnum allt fram á síðustu mínútu þar sem Fram náði að knýja fram nauman sigur 17-16. 

B liðið sýndi það í föstudagsleiknum að þegar þær eru með hugann við verkið og ætla sér eitthvað eru þær til alls líklegar. Þær fengu í rauninni mjög dýrmæta lexíu út úr þessari helgi, hvað það þýðir að mæta rétt stemmdur í leiki. Ef að viljinn og krafturinn er til staðar er allt hægt. Ef að einbeitingin er hins vegar út á túni er voðinn vís.  

Það er þó jákvætt að segja frá því að ýmsir leikmenn B liðsins eru búnir að sýna miklar framfarir í sinni spilamennsku og eru svo sannarlega á réttri leið. 
Nú þýðir lítið annað en að sýna frumkvæði og metnað á æfingum til að stíga skrefið til fulls.