3. flokkur kvenna: Tap gegn ÍR

ÍR kom í heimsókn um helgina til þess að spila við KA/Þór í 3. flokki kvenna. Liðin mættust í öðrum leik tímabilsins þar sem ÍR bar sigur úr býtum í hörku leik og því vitað að í þessari viðureign mundu mætast stálin stinn.

KA/Þór mætti með vængbrotið lið til leiks en veikindi og skíðaferðir í Austurríki settu strik í reikninginn og hópurinn því þunnskipaðri en áður. Það voru hinsvegar stelpur úr 4. flokki sem mættu galvaskar og hjálpuðu til við að fylla í þau skörð sem þurfti að fylla í.

Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik en ÍR ávalt skrefi á undan fyrstu mínúturnar, þá small vörnin hjá KA/Þór og þær náðu að komast framúr og náðu tveggja marka forustu í stöðunni 10-8. Adam var þó ekki lengi í Paradís og áður en hálfleiksflautan gall höfðu ÍR stelpurnar skorað þrjú mörk í röð og leiddu 10-11 í hálfleik.

Í síðari hálfleik náði ÍR fjögurra marka forystu í stöðunni 12-16 en norðanstúlkur gáfust þó ekki upp og náðu að minnka muninn í 18-19. Mikil harka var í leiknum og komst ÍR upp með fólskuleg brot sem m.a. sendu einn leikmann KA/Þórs á sjúkralistann, en Ásdís Guðmundsdóttir fékk harkalega hrindingu sem olli því að hún viðbeinsbrotnaði. Þetta var reiðarslag fyrir heimaliðið og ÍR náði aftur undirtökum í leiknum og náði að sigra leikinn með fjögurra marka mun, 19-23.

Stelpurnar í 3. flokki kvenna eru því enn neðstar í deildinni en ætla að klifra upp töfluna eins og þær geta í næstu leikjum. Næstu helgi heldur liðið suður þar sem þær mæta HK á föstudaginn og Selfossi á sunnudaginn.