3. flokkur kvenna spilaði þrjá leiki um helgina

3. flokkur kvenna spilaði þrjá leiki um helgina gegn Stjörnunni, ÍBV og Haukum. 

Á föstudeginum spiluðu þær gegn Stjörnunni. 
Stjarnan byrjaði af krafti og náðu yfirhöndinni í byrjun leiks. Við það var vörninni breitt og KA/Þór unnu sig síðan hægt og bítandi inn í leikinn og náðu tökum á leiknum um miðbik fyrri hálfleiks og léku glimmrandi vel fram í hálfleik. Í seinni hálfleik byrjuðu norðanstelpur mun betur og náðu fljótt átta marka forustu. Þá small allt í baklás, Stjarnan sótti á og þegar fimm mínútur voru eftir var munurinn einungis þrjú mörk. Nær komst Stjarnan þó ekki og KA/Þór innbyrti góðan sigur. 

Laugardagsleikurinn var gegn ÍBV í Austurbergi. Til þess að spara ferðakostnað var ákveðið að liðin mættust á miðri leið. Þessi leikur átti að vera í desember en vegna slæmra veðurskilyrða gekk það ekki upp og leikurinn því settur á um helgina. 
KA/Þór spilaði virkilega vel allan fyrri hálfleikinn og átti ÍBV fá svör og voru í raun ljónheppnar að munurinn var einungis fimm mörk í hálfleik. Eins góður og fyrri hálfleikurinn var, verður að segjast að seinni hálfleikurinn var jafn slæmur. Ógrynni skota lentu í stöng eða í markmanni ÍBV og þegar ein og hálf mínúta var eftir af leiknum voru ÍBV allt í einu komnar með tveggja marka forustu. Með mikillri seiglu náðu KA/Þór stelpur að jafna leikinn og voru ekki langt frá því að stela sigrinum í lokin. Miðað við hvernig fyrri hálfleikurinn spilaðist og síðustu mínúturnar af seinni hálfleik er grátlegt að þetta hafi farið í jafntefli en það var engu að síður niðurstaðan. 

Síðasti leikur helgarinnar var síðan gegn Haukum á Ásvöllum. Haukastelpur hafa spilað virkilega vel í vetur og sitja á toppnum, taplausar og gera enn. 
Fyrri hálfleikurinn var nokkuð jafn ef frá eru taldar síðustu tvær mínúturnar í hálfleiknum þar sem Haukastelpur skoruðu þrjú mörk í röð og leiddu því með fjórum mörkum í hálfleik. Upphaf seinni hálfleiks er síðan tími sem allar og allir sem standa að þessu liði vilja helst gleyma sem fyrst. Sóknarleikurinn sem hafði verið virkilega góður í fyrri hálfleik hrundi og vörnin var nákvæmlega engin. Þegar 13 mínútur voru búnar af fyrri hálfleik voru Haukastelpur komnar í ellefu marka forustu, 28-17. Þegar öll von virtist úti og allt stefndi í rótburst vöknuðu norðanstelpur loksins, vörnin lokaðist algjörlega og allt gekk upp sóknarlega. Þær minnkuðu muninn jafnt og þétt og fengu á tímabili fjögur tækifæri til að minnka muninn í 31-29 en inn vildi boltinn ekki. Þegar þær voru komnar svona grátlega nálægt því að gera þetta að leik aftur lenti boltinn leiðinlega oft í stönginni. Þegar rúm mínúta var eftir af leiknum kláraðist bensínið og Haukastelpur skoruðu þrjú mörk í röð. Lokatölur 35-29 fyrir Hauka. Stelpurnar sýndu gríðarlegan karakter síðasta korterið í leiknum en staðan sem þær voru búnar að koma sér í þegar þar að kom var of erfið að þessu sinni. 

Sóknarleikurinn í leiknum var þó gríðarlega góður en til þess að leggja lið eins og Hauka af velli þarf vörn, markvarsla og sóknarleikurinn að vera á pari. 


Næsti leikur stelpnanna er gegn liði HK í KA heimilinu sunnudaginn 6. mars. HK stelpur hafa einungis tapað einum leik í vetur og það gegn Haukum þannig að nokkuð ljóst að nýta þarf tímann fram að þeim leik virkilega vel og fara yfir það sem miður fór um helgina.