Á sunnudaginn síðastliðinn mættu HK stelpur í heimsókn í KA heimilið. HK er á toppi deildarinnar með Haukum og Gróttu og hafa
á að skipa gríðarlega sterku liði. Eitthvað virtist mannskapurinn á pappírnum hræða heimastúlkur því það er skemmst
frá því að segja að liðið náði aldrei að stilla sig af varnarlega og gengu HK stelpur nánast í gegnum vörn KA/Þórs
allan leikinn. Hinum meginn á vellinum var reyndar sömu sögu að segja og réð vörn HK engan veginn við Kolbrúnu Gígju né Laufeyju
Láru og var leikurinn því nokkuð jafn lengst af en HK leiddi þó alltaf með 2-4 mörkum. Þegar fimm mínútur voru eftir náðu
HK stelpur að auka forskotið í 5 mörk og öll von virtist úti enda vörnin engan veginn að gera sig. Síðustu fimm mörk leiksins voru HK
mörk og fóru þær því með tíu marka sigur af hólmi.
Tveimur dögum síðar (í kvöld) mætti Grótta í heimsókn. Grótta hefur á að skipa mjög sterku liði í 3. flokk og
höfðu fyrir leikinn í kvöld einungis tapað tveimur leikjum. Grótta reyndist sterkari aðilinn framan af en vörn KA/Þórs var þó mun
sterkari heldur en gegn HK og seldu þær sig dýrt. Sú barátta skilaði þeim glæsilegum tveggja marka sigri gegn sterku liði
Gróttu.
Kolbrún Gígja fór hreinlega hamförum sóknarlega og skoraði 12 mörk í öllum regnboganslitum, Steinþóra Sif var einnig mjög beitt
og skoraði 9 góð mörk. Laufey Lára var sí ógnandi og bjó til mikið af færum fyrir liðsfélaga sína.
Varnarlega spiluðu allar stelpurnar mjög vel og baráttan til fyrirmyndar.
Lykillinn að velgengni hjá þessum stelpum liggur í vörninni. Þegar þær ná upp baráttu þeim meginn og eru tilbúnar að
fórna sér fyrir liðið þarf ekki að spurja að leikslokum.
Þetta var góður sigur og mikilvægur fyrir liðið til að tryggja sér inn í 8 liða úrslitin. Þær eiga þó langt
í land með að tryggja sér sæti í 8 liða úrslitum og ljóst að þær þurfa að halda vel á spöðunum og
slást fyrir hverjum einasta punkti sem eftir er í þessari deild. Ef þær spila eins og í kvöld eru þeim allir vegir færir.