3. flokkur KA/Þór í undanúrslit í bikarnum - myndir

Á föstudagskvöldið fór fram leikur í 8-liða úrslitum bikarkeppni HSÍ í 3. flokki kvenna. Þar áttust við heimastúlkur í KA/Þór og HK. Liðin höfðu mæst tvisvar í vetur og höfðu KA/Þór ekki náð að sigra HK liðið í þeim viðureignum. Fyrsti leikurinn endaði með 4 marka sigri HK en sá síðari endaði með jafntefli. Fyrirfram var því búist við hörku viðureign.

Fyrri hálfleikurinn fór rólega af stað og var greinilega smá stress í báðum liðum enda mikið undir. Heimstúlkur komust þó í 2-0 og náðu mest fjögurra marka forskoti í fyrri hálfleik í stöðunni 6-2. Þá kom góður kafli hjá HK og þær náðu að jafna metin í 8-8 þegar um 20 mínútur voru liðnar af leiknum. KA/Þór gafst þó ekki upp og var alltaf skrefi á undan í leiknum og höfðu þær 1-2 marka forustu það sem lifði hálfleiksins en hálfleikstölur voru 11-9 KA/Þór í vil. Varnarleikurinn var mjög góður hjá stelpunum og Sunna Guðrún var í miklu stuði fyrir aftan og varði marga mikilvæga bolta.

Sunna Guðrún

Í síðari hálfleik skiptu stelpurnar í KA/Þór þó um gír og múruðu hreinlega fyrir HK með varnarleiknum sínum. HK gekk mjög erfiðlega að skora og komst KA/Þór í 14-9 þegar um 12 mínútur voru liðnar af síðari hálfleik. Stelpurnar voru ekki hættar og náðu mest sjö marka forskoti 17-10 og sá munur hélst út leiktímann. Stelpurnar léku á alls oddi sóknarlega og Ásdís Guðmundsdóttir kom gríðarlega öflug inná línuna og raðaði inn mörkum í öllum regnbogans litum. Lokatölur í leiknum voru 26-19 KA/Þór í vil og eru stelpurnar komnar í undanúrslit bikarkeppninnar.

Fagnað í leikslok

Stelpurnar drógust gegn Selfossi í undanúrslitunum á heimavelli og verður það hörku viðureign þar sem liðin gerðu jafntefli fyrir viku síðan á Selfossi. Stelpurnar eru hinsvegar staðráðnar í að komast í höllina og næla sér í bikarmeistaratitilinn.

Markaskor KA/Þór í leiknum:
Birta Fönn Sveinsdóttir 7, Ásdís Guðmundsdóttir 6, Arna Kristín Einarsdóttir 5, Þórunn Eva Sigurbjörnsdóttir 4, Aldís Ásta Heimisdóttir 3 og Kolbrún María Bragadóttir 1.

Í markinu varði Sunna Guðrún Pétursdóttir 20 skot.

Sjá myndir Þóris Tryggvasonar frá leiknum.