Föstudaginn síðasta krýndi Fimleikafélag Akureyrar íþróttamenn ársins 2013. Eins og undanfarin ár þá voru krýndir einstaklingar úr hverri keppnisgrein ásamt því að valinn var íþróttamaður félagsins sem fer sem okkar fulltrúi í kjörið um íþróttamann Akureyrar sem fram fer næstkomandi miðvikudag.
Selma Hörn Vatnsdal var kjörin fimleikakona ársins í hópfimleikum. Selma Hörn var lykilmanneskja í liði FIMAK sem keppti í opnum flokki á unglingamóti, vormóti ásamt því að hún keppti með 2. flokk á haustmóti. Hún er fastamaður í liðinu á öllum áhöldum. Liðið í opna flokknum hampaði 3. sæti á Íslandsmótinu í maí. Selma Hörn tók miklum framförum á síðasta ári, hún náði að bæta við erfiðleikann á öllum áhöldum og jafnframt náði hún þeim árangri að ná lágmörkunum til að komast á tvær opnar landsliðsæfingar í unglingaflokki.
Þórey Edda Þorleifsdóttir var kjörin fimleikakona ársins í áhaldafimleikum kvenna. Þórey Edda hefur verið á mikilli siglingu og bætt sig mikið síðasta ár. Í vor keppti hún í 4. þrepi og vann sér þátttöku á Íslandsmóti þar sem hún hafnaði í 9. sæti. Í haust fluttist hún í 3. þrep og strax á haustmótinu sem haldið var hér á Akureyri lenti hún í 3. sæti á stökki og gólfi og 2. sæti í fjölþraut.
Birgir Valur Ágústsson var kjörinn íþróttamaður ársins í áhaldafimleikum karla. Birgir Valur er ungur og mjög efnilegur strákur. Þetta er í annað skipti sem Birgir Valur fær þennan titil. Hann keppti í fyrravor í 5. þrepi og sópaði til sín verðlaunum á flestum áhöldum og vann sér þátttökurétt á Íslandsmót þar sem hann lenti í 2. sæti á fólgi og 3. sæti á bogahest og 5. sæti í fjölþraut. Í haust keppti Birgir Valur í 4. þrepi og hafnaði hann þar í 1. sæti á stökki.
Gunnar Skírnir Brynjólfsson var kjörinn Íþróttamaður ársins í stökkfimi. Gunnar Skírnir keppti í fyrsta skipti í Stökkfimi nú í nóvember. Skemmt er frá því að segja að hann kom sá og sigraði og var þar krýndur Íslandsmeistari í sínum aldursflokki. Gunnar Skírnir hefur áður bæði keppt í áhaldafimleikum og í vor í hópfimleikum en þar sem félagið náði ekki í lið í hópfimleikum nú í haust var ákveðið að prófa stökkfimina.
Bjarney Sara Bjarnadóttir var svo kjörin íþróttamaður fimeikafélagssins. Bjarney Sara var í fyrra kjörin íþróttakona 2012 í áhaldafimleikum kvenna. Bjarney Sara gekk mjög vel á árinu 2013. Um vorið keppti hún í 4. þrepi íslenska fimleikastigans og náði hún því lágmarki að taka þátt á Íslandsmóti. Á Íslandsmótinu hafnaði hún í 2. sæti í fjölþraut sem er besti árangur sem fimleikastúlka frá FIMAK hefur ná á Íslandsmóti í áhaldafimleikum. Jafnframt var Bjarney Sara í bikarliði FIMAK sem lenti í 4. sæti sem er næst besti árangur bikarliðs frá FIMAK í áhaldafimleikum. Í haust keppti Bjarney Sara í 3. þrepi íslenska fimleikastigans og bætti hún sig mjög mikið. Hún hefur náð tökum á öllum skylduæfingum í þrepinu og vinnur að því að auka enn á erfiðleikagildin. Hún er mjög samviskusöm og ástundun til fyrirmyndar. Bjarney Sara er frábær fyrirmynd enda jákvæð, dugleg og glaðvær stelpa.