Helena og Mateo best - 6 frá KA í úrvalsliðinu

Blak
Helena og Mateo best - 6 frá KA í úrvalsliðinu
Helena og Mateo áttu frábært tímabil

Karla- og kvennalið KA í blaki hömpuðu bæði Íslandsmeistaratitlinum í vetur, stelpurnar gerðu reyndar töluvert meira og lyftu öllum titlum vetrarins og urðu þar með Íslands-, Bikar- og Deildarmeistarar auk þess að vera meistarar meistaranna.

Það kom því ekki á óvart að leikmenn KA væru fjölmennir í úrvalsliðum efstu deilda karla og kvenna í vetur en alls á KA sex fulltrúa í liðunum, þrír í karlaliðinu og þrjár í kvennaliðinu.

Ekki nóg með það að þá voru þau Helena Kristín Gunnarsdóttir og Miguel Mateo Castrillo valin bestu leikmenn tímabilsins og eru þau ansi vel að þeim heiðri komin.

Helena Kristín Gunnarsdóttir var valin besti leikmaður tímabilsins og er einnig í úrvalsliðinu í stöðu kants. Helena sem sneri aftur á blakvöllinn í ár sýndi stórkostlega takta og endaði sem einn stigahæsti leikmaður deildarinnar en hún leikur einnig lykilhlutverk í móttöku KA liðsins.

Miguel Mateo Castrillo var valinn besti leikmaður karlamegin en hann var einnig stigahæsti leikmaður deildarinnar og það með miklum yfirburðum. Mateo sem er einnig þjálfari karla- og kvennaliðs KA dreif karlaliðið áfram þegar mest á reyndi í úrslitakeppninni og skoraði meðal annars 45 stig er KA vann mikilvægan sigur á þáverandi Íslandsmeisturum Hamars í öðrum leik liðanna í úrslitaeinvíginu.

Jóna Margrét Arnarsdóttir var valin í stöðu uppspilara í úrvalslið kvenna en Jóna átti einnig flesta ása eða stig úr uppgjöfum í deildinni. Jóna hefur blómstrað í uppspilarastöðunni hjá KA liðinu undanfarin ár og orðin fastamaður í A-landsliði Íslands skrifaði í gær undir hjá spænska liðinu FC Cartagena.

Zdravko Kamenov kom eins og stormsveipur inn í karlalið KA á miðju tímabili og átti stóran þátt í því að rífa liðið frá miðri deild og í það að hampa sjálfum Íslandsmeistaratitlinum. Zdravko var valinn í úrvalslið karla í stöðu uppspilara og verður afar spennandi að fylgjast með honum í KA búningnum á næsta tímabili.

Valdís Kapitola Þorvarðardóttir var valin besti frelsinginn kvennamegin en Valdís hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir framgöngu sína í KA liðinu undanfarin ár og var meðal annars kjörin blakkona ársins árið 2022 og er auk þess lykilleikmaður í íslenska landsliðinu.

Gísli Marteinn Baldvinsson átti stórkostlegt tímabil með karlaliði KA en hann fór að spila á miðju í vetur og reyndist það heldur betur heillaskref. Hann endaði með flestar blokkir í úrvalsdeild karla og var að sjálfsögðu í úrvalsliði karla í stöðu miðju.

Óskum okkar mögnuðu fulltrúum innilega til hamingju með útnefningarnar!


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  | blak@ka.is