Úrslit helgarinnar

Úr leik KA og Þróttar R á laugardag
Úr leik KA og Þróttar R á laugardag

Meistaraflokkar karla og kvenna fengu Þrótt R í heimsókn um helgina.

Karlalið KA sigraði báða sína leiki 3-1. Fyrsta hrinan fór 25-17 fyrir KA sem átti ágætisleik, góð hávörn og þó nokkur stig fengust úr laumum. Í hrinu tvö voru liðin jöfn að stigum framan af en síðan tóku Þróttarar forystuna og unnu 25-21. Næstu tvær hrinur unnu KA menn nokkuð örugglega 25-16 og 25-17. Stigahæstir í liði KA voru Ævarr Freyr Birgisson með 20 stig og Valþór Ingi Karlsson með 15 stig. Hjá Þrótti voru það Adris Orlovs með 20 stig og Fannar Grétarsson með 13 stig. Í seinni leiknum voru KA menn sprækari en Þróttarar í fyrstu hrinunni sem fór 25-14 fyrir KA. Næstu hrinu höfðu þeir einnig í hendi sér sem fór 25-19. Í þriðju hrinu duttu norðanmenn algjörlega út og létu taka sig í bakaríið 7-25. Filip uppspilari/þjálfari KA manna var ekki ánægður með þessa hrinu og skeytti skapi sínu á boltanum og fékk gult spjald fyrir. Fyrstu stigin í síðustu hrinunni féllu jafnt milli liða en síðan náðu KA menn stöðunni 23-11 en þá náðu Þróttarar að jafna leikinn aðeins og endaði hrinan 25-20. Sigahæstir hjá KA mönnum voru þeir Ævarr Freyr Birgisson með 17 stig og Sævar Karl Randversson með 12 stig en hjá Þrótturum voru það Fannar Grétarsson með 13 stig og Andris Orlovs með 11 stig. 

Í fyrri kvennaleiknum sigruðu Þróttarkonur 3-0. Þær voru með sterkar uppgjafir sem KA stelpur áttu í erfiðleikum með en þær áttu góða spretti inn á milli. Hrinurnar fóru 25-12, 25-14 og 25-12. Sigahæstar í liði KA voru þær Ásta Harðardóttir og Friðrika Marteinsdóttir, með 5 stig hvor en hjá Þrótti var Sunna Þrastardóttir með 13 stig og svo Sunna Björk Skarphéðinsdóttir með 11 stig. Í síðari leiknum ákváðu þær að hafa sama háttinn á og strákarnir að hafa sem mest út úr leiknum og spiluðu 4 hrinur en Þróttur vann KA 3-1. Fyrsta hrinan fór 25-12 fyrir Þrótti en í hrinu tvö höfðu KA stúlkur yfirhöndina og unnu 25-21. Þriðja hrinan var mjög spennandi en að endanum kláruðu Þróttara hana 27-25. Síðasta hrinan fór svo 25-19 fyrir Þrótti. Hjá KA liðinu voru stigahæstar þær Friðrika Marteinsdóttir með með 15 stig og Hólmfríður Ásbjarnardóttir með 8 stig en hjá Þróttir voru það þær Sunna Björk Skarphéðinsdóttir og Rasa (hef því miður ekki fullt nafn) en þær voru báðar með 14 stig.