Stjarnan vann og KA er úr leik

Þriðji leikur KA og Stjörnunnar, um að komast í úrslit Íslandsmótsins, fór fram í KA heimilinu í kvöld.  Hvort lið hafði unnið einn leik og því þurfti oddaleik til að skera úr hvort liðið kæmist áfram í úrslitaleikina gegn Þrótti. Það er skemmst frá því að segja að Stjarnan vann í hörkuleik 3:1 en KA færði gestunum allt of mörg auðveld stig og því fór sem fór.

 

KA Stjarnan 1:3 (21:25, 20:25, 25:23, 22:25)

KA menn byrjuðu leikinn ekki nógu vel og var móttakan sérstaklega vandræðaleg. Þeir komust svo smám saman í gang og skilaði Piotr nánast öllu beint í gólf. Um miðja hrinuna var orðið jafnt 13:13 og KA með smá meðbyr. Leikmenn virtust ætla að nýta sér hann og náðu þeir frumkvæðinu um tíma. Þá kom kafli með nokkrum slökum móttökum og sóknum sem gerði út um vonir KA. Staðan fór úr 17:15 í 20:20 og svo í 20:23. Þessi kafli varð heimamönnum afar dýr og má segja að agaleysi og lítil liðsheild hafi gert útslagið en menn voru ekki mikið að bakka hvern annan upp á þessum örlagaríku augnablikum.

Stjarnan var betri fram í miðja aðra hrinuna en þá fengu KA-menn fína sénsa á að ná Garðbæingum. Því miður nýttust þau tækifæri ekki. T.a.m. fóru þrjár uppgjafir í röð og það dró úr mönnum kjarkinn á að sækja almennilega og Stjarnan fékk auðveldar sóknir. Þeir bláklæddu kláruðu svo hrinuna 20:25 nokkuð auðveldlega.

Marek þjálfari greip nú til þess ráðs að taka Piotr út af og Valli kom inn í staðinn. Piotr hafði verið að spila flottan leik í heildina svo þessi skipting kom á óvart. Valli hins vegar byrjaði af miklum krafti og dreif liðið áfram með sinni einstöku útgeislun. Liðið einhvernveginn hrökk í gírinn og sóknirnar gengu flestar upp. Menn fóru að stökkva í gólfið, verja einn og einn bolta og fagna eins og vitleysingar svo hrein unun var á að horfa. Sérlega gaman var að fylgjast með Hilmari og Till sem báru nú mun meiri ábyrgð og þeir smurðu nánast allt í gegn. Þrátt fyrir fjölmörg mistök í uppgjöf og móttöku í þessari hrinu þá skilaði krafturinn og baráttan sér í naumum 25:23 sigri.  

Fjórða hrinan var hið mesta basl. Hávörnin og miðjusóknin gekk að vísu vel en annað dalaði á meðan. Till hélt að vísu áfram að negla öllu í gólf en töluvert fjaraði undan bæði Valla og Hilmari. Piotr kom aftur inn á um miðja hrinuna í stöðuni 11:16 og skilaði sínu. Því miður þá var forskot Stjörnunnar of mikið og lauk hrinunni 22:25.

Keppnistímabilinu er því lokið hjá þessu efnilega liði sem þyrfti eflaust 1-2 ár í viðbót til að springa endanlega út.

Stig KA í leiknum (sókn-blokk-uppgjöf):

 Till Wohlrab  13  13-0-0
 Hilmar Sigurjónsson  12  11-1-0
 Piotr Kempisty  12  10-1-1
 Valgeir Valgeirsson    8    7-1-0
 Kristján Valdimarsson    8    6-2-0
 Hafsteinn Valdimarsson    7    4-3-0
 Filip Szewczyk    3    0-3-0