Stelpurnar í U17 sóttu gull til Danmerkur

Blak

Amelía Ýr Sigurðardóttir og liðsfélagar hennar í U17 ára landsliði Íslands í blaki gerðu sér lítið fyrir og sóttu gull á NEVZA mótinu í Ikast í Danmörku sem lauk í dag. Á mótinu léku auk Íslands lið Danmerkur, Noregs og Færeyja.

Liðið tapaði fyrsta leik sínum á mótinu 0-3 gegn sterku liði Danmerkur, 25-18, 25-21 og 25-17. En stelpurnar svöruðu heldur betur fyrir sig í kjölfarið, fyrst vannst 3-1 sigur á liði Færeyja 25-11, 17-25, 25-18 og 25-16 og því ljóst að lokaleikur riðilsins gegn Noregi myndi skera úr um hvort liðið myndi mæta heimastúlkum í úrslitaleiknum.

Noregur hafði tapað í oddahrinu gegn Dönum og var því með 4 stig fyrir leikinn en Ísland með 3. En stelpurnar sýndu frábæran leik og fóru með afar sannfærandi 3-0 sigur af hólmi þar sem Ísland vann 25-20, 25-12 og 25-20 sigra í hrinunum þremur og heldur betur stígandi í spilamennsku liðsins.

Úrslitaleikurinn fór svo fram í dag og þar sýndu stelpurnar sinn besta leik til þessa og gerðu sér lítið fyrir og unnu 3-0 sigur, 25-20, 25-12 og 25-19. Frábær frammistaða hjá liðinu sem kemur því til baka með gull en þetta var fyrsta NEVZA mótið sem hefur verið haldið undanfarin tvö ár vegna Covid veirunnar.

Við óskum Amelíu og liðsfélögum hennar innilega til hamingju með þennan frábæra árangur.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  | blak@ka.is