Flýtilyklar
Stelpurnar í 2. sæti á Evrópukeppni smáþjóða
A-landslið karla og kvenna í blaki léku á Evrópukeppni smáþjóða um helgina og átti KA alls 8 fulltrúa í hópunum, þrjá í kvennalandsliðinu og fimm í karlalandsliðinu. Kvennalandsliðið lék á Varmá í Mosfellsbæ en karlalandsliðið lék í Færeyjum.
Þær Heiðbrá Björgvinsdóttir, Jóna Margrét Arnarsdóttir og Lovísa Rut Aðalsteinsdóttir léku með kvennalandsliðinu sem vann góða 3-1 sigra á bæði Írum og Færeyingum en þurfti að sætta sig við 1-3 tap gegn Skotlandi og enduðu stelpurnar því í 2. sæti á mótinu. Þær Heiðbrá og Lovísa voru heiðraðar á mótinu af BLÍ en þær voru að leika sína fyrstu A-landsleiki.
Þeir Birkir Freyr Elvarsson, Börkur Marinósson, Draupnir Jarl Kristjánsson, Gísli Marteinn Baldvinsson og Sölvi Páll Sigurpálsson léku með karlalandsliðinu. Strákarnir sýndu flotta takta en þurftu á endanum að sætta sig við tap í sínum þremur leikjum og enduðu því í 4. sæti mótsins. Þeir Börkur, Draupnir, Gísli og Sölvi voru svo allir heiðraðir fyrir að spila sína fyrstu A-landsleiki á mótinu.
Framundan er undankeppni EM hjá U21 árs landsliði kvenna þar sem þær Heiðbrá og Jóna fara til Svartfjallalands þar sem Ísland mætir Svartfjallalandi, Tyrklandi og Póllandi.
U22 árs landslið karla leikur einnig í undankeppni EM á næstunni þar sem þeir Börkur, Draupnir, Gísli og Sölvi verða í eldlínunni en Ísland mætir þar Úkraínu, Danmörku og Tyrkjum en leikið verður í Tyrklandi.