Sjö leikmenn semja hjá karlaliði KA

Blak
Sjö leikmenn semja hjá karlaliði KA
Pedro kemur í stöðu uppspilara í vetur

Sjö leikmenn skrifuðu á dögunum undir samning hjá karlaliði KA í blaki en fyrsti leikur liðsins í úrvalsdeildinni er í KA-Heimilinu á morgun, föstudag, klukkan 20:15 og eru nokkrar breytingar á liðinu fyrir komandi átök.

Spánverjinn Pedro Jose Lozano Caballero er genginn í raðir KA en hann er 24 ára gamall uppspilari sem kemur einnig af krafti inn í þjálfun yngriflokka og öldungaliða KA.

Andri Snær Sigurjónsson er einnig genginn í raðir KA en hann kemur frá Þrótti Neskaupstað en hann er 21 árs gamall kantur og verður gaman að fylgjast með honum í gula og bláa búningnum í vetur.

Ástralinn Matthew Paul Tyrrell er einnig nýr í okkar röðum en hann er tvítugur og leikur í stöðu libero.

Birkir Freyr Elvarsson framlengdi sinn samning við blakdeild en Birkir er 24 ára gamall landsliðsmaður og hefur verið í lykilhlutverki bæði innan og utan vallar hjá blakdeild KA.

Hermann Biering Ottósson framlengdi við blakdeildina en hann er 24 ára gamall og leikur í stöðu miðju. Hermann lék stórt hlutverk í KA liðinu á síðustu leiktíð og verður áfram gaman að fylgjast með framgöngu hans í vetur.

Gísli Marteinn Baldvinsson framlengdi einnig sinn samning við KA en hann er tvítugur og spilar bæði sem kantur og miðja. Gísli hefur verið fastamaður í unglingalandsliðum Íslands og hefur unnið sér inn stærra og stærra hlutverk í öflugu liði KA undanfarin ár.

Að lokum framlengdi Sölvi Páll Sigurpálsson sinn samning en þessi 19 ára gamli kantsmassari er rétt eins og Gísli fastamaður í unglingalandsliðum Íslands og hefur einnig verið að vinna sér inn stærra hlutverk í meistaraflokksliði KA.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  | blak@ka.is