Föstudagur 17. okt. - Digranes
KA menn höfðu sigur í fyrsta leik sínum á tímabilinu gegn HK en leikurinn fór fram á föstudagskvölið í Digranesi. Þjóðverjinn Ulrich Frank Wohlrab spilaði sinn fyrsta leik með KA og fékk óvænt stórt hlutverk í leiknum í fjarveru Kristjáns Valdimarssonar sem ekki gat spilað vegna veikinda. KA menn fara því vel af stað í mótinu og eru greinilega til alls líklegir í ár.
Greinilegt var að KA menn höfðu setið í bíl lengi og voru ekki tilbúnir í leikinn. Þeir hófu leikinn mjög illa og lentu 8-0 undir. Tóku þeir aðeins við sér og klóruðu í bakkann en í stöðunni 12-8 fyrir HK þá tóku KA menn hlé. Hresstist liðið fljótlega eftir það og náði loks að jafna leikinn í 17-17. Þá kom kafli þar sem Kempa fór fyrir sínum mönnum og átti nokkur góð smöss. HK menn voru samt aldrei langt undan og í stöðunni 24-24 klúðruðu KA menn uppgjöf og stigu á sóknarlínu í smassi, hentu jafnri hrinu frá sér og töpuðu 26-24. KA byrjaði betur í 2. hrinu og komust í 4-9. HK menn tóku hlé en allt kom fyrir ekki. Hilmar kom sterkur inn og átti nokkur hörkusmöss Filip með góða laumu og Kempa með stig í uppgjöf. Hafsteinn átti gott miðjusmass og blokk í lokin og kláraði KA hrinuna auðveldlega 12-25. 3. Hrina var jöfn allan tímann þar til í stöðunni 21-21. Þá virtust taugar KA manna sterkari og afdrifarík mistök HK drengja gerðu út um hrinuna sem endaði 21-25 fyrir KA. Staðan þá 1-2 fyrir KA í leiknum. 3. Hrina hófst ekki ósvipað þeirri síðustu en jafnt var á tölum upp í 10-10, þá tók KA góðan kipp og komst í 12-18. HK tók aðeins við sér minnkaði muninn í 18-22 en náði aldrei að ógna sigri KA. Hilmar kom KA í 18-24 með dúndur smassi og lauk hrinunni 19-25 fyrir KA. Leikurinn endaði því 1-3 fyrir KA. KA menn voru fremur fáliðaðir þar sem Kristján spilaði ekki með vegna veikinda. Piotr og Hilmar voru stigahæstir í liði KA og Þjóðverjinn Ulrich Wohlrab spilaði sinn fyrsta leik í Íslandsmóti og stóð sig vel.