Öruggur 0-3 sigur KA á Álftanesi

Blak
Öruggur 0-3 sigur KA á Álftanesi
Flott frammistaða í dag (mynd: Egill Bjarni)

KA sótti Álftanes heim í Mizunodeild kvenna í blaki í dag en fyrir leikinn voru liðin í 3. og 4. sæti deildarinnar. KA er í harðri baráttu við HK og Aftureldingu á toppnum en Álftanes er hinsvegar að berjast um síðasta sætið í úrslitakeppnina í vor.

Fyrri leikir liðanna í vetur hafa verið jafnir og spennandi en KA vann til að mynda fyrri leikinn á Álftanesi eftir oddahrinu. Það kom hinsvegar fljótt í ljós að stelpurnar okkar voru mættar vel stemmdar og ætluðu sér að fara með öll stigin heim.

Eftir að staðan var jöfn 5-5 í upphafi fyrstu hrinu gekk KA liðið á lagið og komst í 7-15 forystu. Eftir það var aldrei spurning hvoru megin sigurinn í hrinunni myndi enda og sigldu stelpurnar 18-25 sigri og tóku þar með forystuna 0-1.

Lið Álftanes beit hinsvegar hressilega frá sér í annarri hrinu og tók frumkvæðið til að byrja með. En hægt og bítandi tókst KA liðinu að brúa bilið og úr varð spennandi barátta á lokakaflanum. Álftanes leiddi 22-21 en sterkur endasprettur okkar liðs tryggði 23-25 sigur í hrinunni og staðan því orðin 0-2.

Stelpurnar gáfu ekkert eftir í þriðju hrinu og leiddu frá upphafi. Þær þurftu þó að hafa töluvert fyrir hlutunum því heimastúlkur sem voru með bakið uppvið vegg reyndu hvað þær gátu til að koma sér aftur inn í jafna stöðu en að lokum tókst þeim það ekki og KA vann hrinuna 21-25 og leikinn samanlagt 0-3.

Flott frammistaða hjá stelpunum sem mættu fáliðaðar í leikinn en það kom ekki að sök. Þrjú dýrmæt stig í hús og KA er nú með 20 stig ásamt Aftureldingu og einu stigi á eftir HK sem er á toppnum en KA hefur leikið fleiri leiki.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  | blak@ka.is