Nýr yfirþjálfari

Pólverjinn Marek Bernat hefur verið ráðinn yfirþjálfari hjá Blakdeild KA og er hann væntanlegur til landsins í byrjun september. Gerður hefur verið tveggja ára samningur við Marek sem er 46 ára gamall og mun hann flytja til landsins ásamt fjölskyldu sinni, konu og þremur börnum. Auk þess að þjálfa meistaraflokka karla og kvenna mun Marek þjálfa hluta yngri flokka félagsins

Koma Mareks er mikill hvalreki fyrir blakdeildina en hann hefur komið víða við á sínum þjálfaraferli. Hann er menntaður sjúkraþjálfari sem hefur þjálfaramenntun frá Háskólanum í Kraká og er alþjóðlegur þjálfari með tilskilin réttindi frá Alþjóða blaksambandinu.

Á síðasta tímabili þjálfaði hann lið WTC Warka í pólsku annarri deildinni en áður hefur hann þjálfað 1. deildarlið þar í landi, bæði karla og kvennalið. Þá þjálfaði hann lið í Katar í eitt ár.

Á árunum 1998 - 2000 var Marek aðstoðarþjálfari pólska karla landsliðsins sem tók þátt í heimsdeildinni öll þrjú árin og náði best þar 5. sæti árið 2000. Jafnframt tók liðið þátt í úrslitakeppni heimsmeistaramótsins árið 1998 og endaði þar í 13. sæti. Fjögur ár þar á undan var hann aðstoðarþjálfari unglingalandsliðs, sem vann bæði heims- og Evrópumeistaratitla á þeim árum.

KA menn binda miklar vonir við komu Mareks og treysta því sú mikla reynsla sem hann hefur aflað sér komi til með að efla sívaxandi starf deildarinnar.