Koma Mareks er mikill hvalreki fyrir blakdeildina en hann hefur komið víða við á sínum þjálfaraferli. Hann er menntaður sjúkraþjálfari sem hefur þjálfaramenntun frá Háskólanum í Kraká og er alþjóðlegur þjálfari með tilskilin réttindi frá Alþjóða blaksambandinu.
Á síðasta tímabili þjálfaði hann lið WTC Warka í pólsku annarri deildinni en áður hefur hann þjálfað 1. deildarlið þar í landi, bæði karla og kvennalið. Þá þjálfaði hann lið í Katar í eitt ár.
Á árunum 1998 - 2000 var Marek aðstoðarþjálfari pólska karla landsliðsins sem tók þátt í heimsdeildinni öll þrjú árin og náði best þar 5. sæti árið 2000. Jafnframt tók liðið þátt í úrslitakeppni heimsmeistaramótsins árið 1998 og endaði þar í 13. sæti. Fjögur ár þar á undan var hann aðstoðarþjálfari unglingalandsliðs, sem vann bæði heims- og Evrópumeistaratitla á þeim árum.
KA menn binda miklar vonir við komu Mareks og treysta því sú mikla reynsla sem hann hefur aflað sér komi til með að efla sívaxandi starf deildarinnar.