Karlalið KA í blaki vann Bikarúrslitaleikinn í ár eins og flestum ætti að vera kunnugt, en nú erum við komin með myndband með samantekt frá leiknum. Lið HK var ríkjandi Íslands- og Bikarmeistari og var einnig ósigrað á tímabilinu fyrir Bikarúrslitaleikinn, það reiknuðu því flestir með sigri þeirra rauðhvítu. Okkar menn, gulir og glaðir, mættu hinsvegar vel stemmdir í leikinn og unnu verðskuldaðan og sannfærandi 3-1 sigur í mögnuðum leik.
Við hvetjum alla til að kíkja á nokkra flotta takta hjá okkar liði í þessum magnaða sigri á ógnarsterku liði HK. Ævarr Freyr Birgisson, Hilmar Sigurjónsson og Piotr Kempisty fóru mikinn í smössum KA liðsins en það var spilandi þjálfari liðsins, Filip Szewczyk, sem var valinn maður leiksins enda átti hann frábæran leik í uppspilinu.