Myndaveisla frá 3-0 sigri KA á Þrótti R

Blak
Myndaveisla frá 3-0 sigri KA á Þrótti R
Mikilvæg stig í hús! (mynd: Egill Bjarni)

KA tók á móti Þrótti Reykjavík í úrvalsdeild kvenna í blaki á miðvikudaginn. Deildin er svo sannarlega tvískipt en fjögur efstu lið deildarinnar eru í einum knapp og þar fyrir aftan er gríðarleg barátta í sætum 5 til 7.

Með sigri færi KA á topp deildarinnar, hið minnsta um stundarsakir en Þróttur var í 5. sætinu og því flestir sem reiknuðu með sigri okkar liðs. En gestirnir sýndu flotta takta í leiknum og var mikil spenna í fyrstu hrinu þar sem liðin skiptust á að leiða. Jafnt var 15-15 fyrir lokakaflann en þá hreinlega völtuðu stelpurnar okkar yfir gestina og unnu 25-17 sigur og tóku þar með 1-0 forystu.

Hrina 1

Sama spenna var í annarri hrinu og var afar gaman að fylgjast með báðum liðum, mistökin voru fá og bæði lið að sækja stigin sín. Aftur var jafnt 15-15 fyrir lokakaflann en í þetta skiptið stóðu gestirnir í lappirnar og úr varð hörkuspenna. En stelpurnar okkar stóðust pressuna og unnu að lokum með minnsta mun, 25-23, og tóku þar með mikilvæga 2-0 forystu.


Smelltu á myndina til að skoða myndir Egils Bjarna frá leiknum

Hrina 2

Í kjölfarið virtist sem allur vindur færi úr gestunum og KA liðið náði fljótlega góðu taki á þriðju hrinu og var sigur liðsins aldrei í hættu. Að lokum vannst 25-14 sigur og samtals 3-0 sigur KA. Afar mikilvæg þrjú stig í hús en eins og áður segir er baráttan í deildinni gríðarlega hörð og ljóst að hvert stig mun telja þegar upp er staðið.

Hrina 3

Helena Kristín Gunnarsdóttir var stigahæst í okkar liði með 13 stig, Nera Mateljan gerði 9, Gígja Guðnadóttir 8, Heiða Elísabet Gunnarsdóttir 8, Jóna Margrét Arnarsdóttir 5, Hrafnhildur Ásta Njálsdóttir 4, Lovísa Rut Aðalsteinsdóttir 1 og þá gerðu þær Lilja Kristín Ágústsdóttir og Lilja Rut Kristjánsdóttir bæði eitt stig en báðar eru þær að stíga sín fyrstu skref í meistaraflokki og var stigum þeirra eðlilega fagnað vel og innilega.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  | blak@ka.is