Meistaraflokkar karla og kvenna héldu til Neskaupstaðar um helgina þar sem hvort lið átti leiki við Þrótt Nes á föstudagskvöldi og laugardegi. Liðin lögðu af stað um hádegi á föstudaginn en þurftu að snúa við í Reykjahlíð þar sem ekki var fært lengra. Leikjunum var því frestað til laugardags og sunnudags í þeirri von að fært yrði á laugardeginum. Á laugardagsmorgni var aftur farið af stað og komust liðin á leiðarenda og spiluðu liðin sína leiki en þegar að heimferð kom á sunnudeginum var allt orðið ófært aftur og ekki mokað fyrr en í dag, mánudag. Það var því ekki fyrr en undir kvöld, eftir 10 tíma ferðalag, sem allir komust til síns heima. En nóg um það - úrslitin!
Karlaliðin mættust fyrst á laugardag í hörkuleik. KA menn byrjuðu mjög vel og unnu fyrstu hrinuna 25-19. Þróttarar tóku sig þá saman í andlitinu og unnu næstu tvær hrinur 22-25 og 20-25. KA vann svo fjórðu hrinuna 25-20 og tryggðu sér oddahrinu sem þeir unnu svo með minnsta mun 15-13. Stigahæstir í leiknum voru Valgeir Valgeirsson með 18 stig fyrir Þrótt Nes en í liði KA var Piotr Kempisty stigahæstur með 26 stig. Seinni leikurinn fór fram á sunnudagsmorgni og var mjög jafn allan tímann eins sjá má á stigaskorinu. KA menn höfðu betur 25-23, 30-28, 22-25 og 25-23. Stigahæstir voru Valgeir Valgeirsson með 21 stig fyrir Þrótt Nes og Hlöðver Hlöðversson með 17 stig. Í liði KA var Gunnar Hannesson með 20 stig og Ævarr Freyr Birgisson með 15 stig.
Í fyrri leik kvennaliðanna á laugardagskvöldinu sigruðu Þróttarstúlkur nokkuð örugglega 3-0. Hrinurnar fóru 25-16, 25-7 og 25-18. Stigahæstar í leiknum voru Jóna Guðlaug Vigfúsdóttir og Erla Rán Eiríksdóttir með 11 stig hvor. Í liði KA var Ásta Lilja Harðardóttir með 6 stig og Hólmfríður Ásbjarnardóttir með 5 stig. Í kvennaleiknum á sunnudaginn sigruðu Þróttarstúlkur einnig 3-0. Hrinurnar fóru 25-21, 25-15 og 25-12. Stigahæstu leikmenn voru Jóna Guðlaug Vigfúsdóttir með 18 stig og Erla Rán Eiríksdóttir með 11 stig. Í liði KA var Hólmfríður Ásbjarnardóttir með 9 stig og Ásta Lilja Harðardóttir með 5 stig.